143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þessar umræður eru strax orðnar giska snarpar hér í upphafi umræðudags sem á áreiðanlega eftir að verða langur. Það kann kannski engan að undra að þær spretti upp í tengslum við forseta Íslands.

Ég tel reyndar að það sé heppilegt að við ræðum um forseta Íslands og utanríkisstefnuna því að hann hefur haft töluverð afskipti af utanríkismálum síðustu missiri. Þá ber að undirstrika að forsetinn er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og hann hefur fullt málfrelsi samkvæmt stjórnarskránni. Hann verður hins vegar að gæta þess að tala í takt við utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar hverju sinni.

Af því að spurt var um samráð millum utanríkisráðuneytisins og forsetadæmisins er rétt að ég upplýsi að á síðasta kjörtímabili leitaði forseti Íslands margsinnis eftir afstöðu utanríkisráðuneytisins og fékk minnisblöð í ýmsum efnum sem bar ofarlega á góma. Ég held að hann hafi lesið þau en mér er kannski nokkur efi á höndum ef ég ætti að fullyrða að hann hefði farið mjög eftir þeim. Af hans hálfu var með þeim hætti leitað eftir samráði eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur greint frá að sömuleiðis hafi verið gert núna. Það skiptir hins vegar miklu máli að það liggi algjörlega ljóst fyrir að forsetinn tali ekki út fyrir utanríkisstefnuna. Þar liggur undir bæði það sem forsetinn segir en líka tilefnið sem hann kýs til þess að láta ákveðnar skoðanir koma fram.

Ljóst er að í gær orkaði það tvímælis að forsetinn valdi þá stund. Honum er það hins vegar frjálst svo fremi sem menn telji að hann hafi þar ekki farið út fyrir utanríkisstefnuna. Fram kom hjá hæstv. ráðherra áðan að ljóst er að þetta er í samræmi við utanríkisstefnu hans, það er ekki hægt að skilja hann öðruvísi.

Að öðru leyti vil ég segja að í ræðu sinni tók hæstv. utanríkisráðherra miklu skýrar á málefnum Úkraínu en hann hafði áður gert í upphafi umræðu um þau mál hér fyrir nokkrum vikum og ég fagna því. Ég tel það ákaflega mikilvægt að Ísland tali algjörlega einni röddu í þeim efnum.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði, að æskilegt sé að sem mest samstaða ríki um grunnstefin í utanríkisstefnunni. Þannig hefur það líka verið eiginlega fram á síðustu daga. Ég hygg að segja megi að um flest grundvallaratriði ríki sterk samstaða meðal þeirra flokka sem eiga sæti á hinu háa Alþingi utan eitt, um Evrópumálin. En út af þeirri tillögu sem hæstv. ráðherra lagði hér fram öllum að óvörum var friðurinn sundur slitinn. Ef það mál er tekið út fyrir sviga held ég að segja megi að um stærstu þættina, til dæmis varðandi varnar- og öryggismál, sé að minnsta kosti af hálfu Samfylkingarinnar breið samstaða við þá stefnu sem kemur fram í ræðu hæstv. ráðherra og sömuleiðis í skýrslunni.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna, hún var vel flutt. Þó að kvæðið hafi verið vel fram sagt er ekki þar með sagt eins og ég hef þegar rakið að ég hafi verið sammála öllu þar. Skýrslan er prýðileg og þar er drepið á mörgum helstu málum sem að okkur steðja í utanríkismálum. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er í anda samstöðu um hin stóru mál þegar hæstv. ráðherra tók þá farsælu ákvörðun að leggja fram tillögu um fyrstu stefnu Íslands á sviði þjóðaröryggis. Ég vil sérstaklega hrósa hæstv. ráðherra fyrir að hann byggir þar á vinnu sem unnin var undir forustu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur á síðasta kjörtímabili. Hæstv. ráðherra hefði getað, eins og ýmsir ráðherrar, sópað því verki öllu undir stól, en ég tel að það sé pólitískt hraustleikamerki hjá honum að hafa farið yfir það og séð að það var jákvæð vinna. Af okkar hálfu lít ég á það sem útrétta hönd hæstv. ráðherra til að viðhalda samstöðu um grundvallaratriðin á þessu sviði.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kom víða við í ræðu sinni. Við höfum kannski ekki verið algjörlega sammála um með hvaða hætti þróunarsamvinna er útfærð af hálfu Íslands. Ég hefði viljað sjá mun meira fjármagn til þess en ég held að sátt sé líka um hina breiðu línu í þeirri stefnu.

Ég hef eina spurningu til hæstv. ráðherra: Þegar hann þurfti að útfæra stefnuna í krafti þess niðurskurðar sem gerður var frá samþykktri stefnu Alþingis í þróunarmálum, var þá staðið við allar skriflegar skuldbindingar sem fyrri ríkisstjórn hafði gengist undir? Það er mikilvægt fyrir mig, sem var sá sem gerði þær skuldbindingar, að fá úr ræðustól Alþingis skýrt svar við því.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að einn meginþátturinn í utanríkisstefnunni er að greiða fyrir viðskiptum Íslands við útlönd og ekki síst að efla útflutning. Í því samhengi eru fríverslunarsamningarnir auðvitað ákaflega mikilvægir. Eins og hæstv. ráðherra sagði var á síðasta kjörtímabili ráðist í mjög marga fríverslunarsamninga og sá sem stendur upp úr var líkast til einn merkasti fríverslunarsamningur sem lýðveldið hefur gert, þ.e. sá sem gerður var við Kína. Þegar hæstv. ráðherra tók við embætti lagði hann mikla áherslu á að hann mundi halda áfram þeirri vinnu. Hæstv. ráðherra sagði að svo mikið væri að gerast undir forustu hans í ráðherraráði EFTA að ekki væri tóm til þess að rekja það allt saman. Mig langar hins vegar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur fríverslunarsamningur við Indland sem mikil áhersla var lögð á á síðasta kjörtímabili og mig minnir að hæstv. ráðherra hafi sagt að yrði lokið fyrir síðustu áramót?

Ég spyr einnig: Hvað dvelur orminn langa varðandi það að uppfæra mjög mikilvægan fríverslunarsamning við Kanada? Það liggur fyrir að ESB hefur lokið slíkum samningi við Kanada, sem tekur töluvert fram þeim sem við gerðum í gegnum EFTA á sínum tíma við Kanada. Það skekkir auðvitað samkeppnisstöðu fyrirtækja utan ESB gagnvart Kanada. Hvað líður því máli?

Sömuleiðis vek ég eftirtekt á því að eitt af þeim löndum sem við höfum átt náið samstarf við mjög lengi, Japan, hefur á síðustu árum opnað sig gagnvart fríverslunarsamningum. Á síðustu árum má segja að hver fríverslunarsamningurinn hafi rekið annan sem Japan hefur gert við önnur ríki, þar á meðal tvíhliða samning við Sviss. Ég hafði vænst þess að hæstv. ráðherra mundi láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum, sem við komumst ekki til vegna anna við aðra samninga á síðasta kjörtímabili, að hefja viðræður við það góða ríki Japan um fríverslun. Ekki var drepið á það í ræðunni og um það er ekkert að finna í skýrslunni. Þess vegna vil ég kunngera að síðar í dag mun þingsályktunartillögu verða dreift, sem við nokkrir þingmenn flytjum þar sem lagt er til að hæstv. ríkisstjórn verði falið að ráðast í gerð fríverslunarsamnings við Japan. (Gripið fram í: … hvalaafurðir.)

Þó að umræður hafi spunnist um Úkraínu í andsvörum áðan vil ég segja algjörlega skýrt að eitt af því sem mér þótti vænst um í ræðu hæstv. ráðherra áðan var hversu skýrt hann tók af skarið um afstöðu sína og hæstv. ríkisstjórnar gagnvart þeim atburðum sem hafa orðið í Úkraínu. Það skiptir höfuðmáli að rödd okkar heyrist þar algjörlega skýrt. Ég var, eins og hæstv. ráðherra man, giska óánægður með hin fyrstu ummæli sem hann lét falla varðandi atburðina í Úkraínu. Hægt var að skilja þau svo að hann væri að snúa úr því ástandi sem þar hafði skapast enn eina ólina til þess að láta ríða um herðar Evrópusambandsins. Nú liggur fyrir að hæstv. ráðherra hefur skýra afstöðu í því máli.

Ég óttast það að við í Evrópu stöndum á þröskuldi nýrra tíma, ekki jafn heillavænlegra og þeirra sem liggja að baki. Ég óttast að sú staða sem þar er komin upp sé ákveðin kaflaskil og maður veltir því fyrir sér hvernig þróunin verður. Hvað gerist næst? Hvað verður um Austur-Úkraínu? Hvað svo?

Við vitum líka að uggur er í brjósti margra þeirra þjóða sem okkur þykir hvað vænst um, Eystrasaltsþjóðanna, sem fundu á sínum tíma það skjól tryggast að hnipra sig saman undir væng Atlantshafsbandalagsins. Ég vil segja skýrt á þessari stundu að ég tel að atburðirnir í Úkraínu eigi að hafa þau áhrif á utanríkisstefnu Íslands að við tökum upp virka baráttu fyrir því á vettvangi Atlantshafsbandalagsins að það staðfesti á næsta leiðtogafundi í verki vilja sinn til þess að opna dyr sínar. Það eru þrjú ríki sem sækja fast á um það að komast inn í Atlantshafsbandalagið. Við vitum að það er eina vörn þeirra ef allt fer á hinn versta veg — sem guð lofi að ekki verði. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að þessir atburðir eigi að leiða til að Ísland taki upp virka stefnu fyrir því að a.m.k. tvö af þessum þremur ríkjum verði tekin inn í raðir Atlantshafsbandalagsins á næsta leiðtogafundi. Ef ekki, þá tel ég að bandalagið hafi hopað undan og þegar það er lagt saman við það hvernig Vesturlönd og Bandaríkin hafa á síðustu missirum staðið við aðrar markalínur sínar, þá held ég að segja megi að verið sé að eggja óbilgjarnan.

Herra forseti. Það er auðvitað meginstefna í utanríkissamskiptum okkar að treysta stöðu Íslands gagnvart öðrum þjóðum, treysta samskipti okkar og reyna að byggja undir að þau verði sem best. Þó að hægt sé að flestu leyti að segja að breið samstaða sé um utanríkisstefnuna þá er það ekki varðandi Evrópumálin. Ég tel að eins og þau mál hafa þróast núna og sömuleiðis samskiptin við ýmis grannríki okkar sé ekki hægt að segja að utanríkisstefnan í dag virki nægilega vel. Mér finnst hún gisin og hún er óþétt og að ýmsu leyti eru partar af henni brotnir. Okkur hefur ekki tekist að sinna samskiptum við nánar frænd- og grannþjóðir með þeim þaulræktaða hætti sem áður var. Við sjáum það á því hvernig þau ríki sem við höfum talið okkar bestu vini hafa hagað samskiptum sínum við okkur á allra síðustu dögum og vikum. Ég ætla ekki að fara að hnotabítast út í hæstv. ráðherra frekar um makrílmálið og lyktir þess. Síðasta vika þegar hæstv. utanríkisráðherra var hér önnum kafinn með hnútasvipuna gagnvart Evrópusambandinu var sorgleg vika í utanríkissamskiptum okkar. Annað er ekki hægt að segja.

Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar, herra forseti, að samskipti okkar við Evrópusambandið hafi veikst verulega og fullkomlega að ósekju. Það sem hefur skipt mestu máli í því er að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki komið hreint fram við Evrópusambandið. Það sama má auðvitað segja um framkomu hennar gagnvart almenningi á Íslandi. Það liggur ljóst fyrir að hæstv. ríkisstjórn sagði það algjörlega skýrt, ekki bara fyrir kosningarnar heldur eftir kosningarnar, hún sló það í gadda í sinni eigin stefnuyfirlýsingu hvernig hún ætlaði að fara með Evrópumálin. Hún ætlaði að láta þjóðina ráða framhaldinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sagði hún ekki bara við okkur. Hæstv. ráðherrar, frekar tveir en einn, sögðu það líka við Evrópusambandið með þeim hætti að þegar viðræðum hæstv. ráðherra og hæstv. forsætisráðherra lauk við þá í júní og síðar í júlí 2013 var fyrsta viðbragð Evrópusambandsins eftir þau samtöl að spyrja um hvenær þessi þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram. Ástæðan var sú að sambandinu hafði verið tilkynnt að hún færi fram. Þetta veikir stöðu okkar. Hversu harðsvíraðir og hversu hatrammir andstæðingar hæstv. ráðherrar, sem nú sitja á stólum, kunna að vera gagnvart Evrópusambandinu þá mega þeir ekki horfa fram hjá þeirri staðreynd að Evrópusambandið er okkar mikilvægasta markaðssvæði. Það vill svo til að þegar hæstv. ríkisstjórn fór af stað í herleiðangur sinn gegn Evrópusambandinu fyrir nokkrum vikum þá blasti það við að óvenjumargir og snúnir samningar liggja fyrir gagnvart Evrópusambandinu. Menn byrja þá ekki með því að koma aftan að helstu viðsemjendum sínum.

Ég nefni makrílsamninginn og við vitum hvernig hann fór. Ég nefni samninga um Þróunarsjóð EFTA þar sem um miklar fjárhæðir er að tefla. Ég nefni samninga um að hækka tollkvóta á landbúnaðarafurðum gagnvart Evrópusambandinu. Ég nefni það sem hæstv. ráðherra hefur sagt að sé eitt sitt helsta verkefni, sem er að ná fram endurbótum í samningum við Evrópusambandið á EES-samningnum. Og ég nefni það líka, sem fæstir gera sér kannski grein fyrir að getur ráðið úrslitum um hvernig við stöndum að EES-samningnum í framtíðinni, þ.e. með hvaða hætti við getum tekið upp ýmsar mjög djúptækar og mikilvægar tilskipanir á sviði banka- og fjármálagerninga, sem okkur er ókleift að taka upp að óbreyttri stjórnarskrá nema við náum samkomulagi við Evrópusambandið um það. Og ef það næst ekki þá er EES-samningurinn í uppnámi.

Þá er þess líka að geta að ef við stöndum ekki við EES-samninginn hvað varðar frelsi á flutningum fjármagns — en um það höfum við fengið kíki sambandsins fyrir blint auga þess hingað til — þá munum við þurfa skilning þess enn frekar þar sem ljóst er að það mun frestast enn lengur að við getum aflétt höftunum. Sömuleiðis dregur að því að við munum ljúka samningum við kröfuhafa og það liggur alveg ljóst fyrir að Íslendingar munu þar þurfa að fara óhefðbundnar slóðir sem kalla á skilning af hálfu ríkja Evrópusambandsins. Því held ég því fram að sá leiðangur sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin fóru í gagnvart Evrópusambandinu þar sem menn brutu sínar eigin yfirlýsingar, komu aftan að sinni eigin þjóð og viðsemjendunum, hafi veikt mjög stöðu Íslendinga (Forseti hringir.) gagnvart þeim mikilvægu samningum sem við eigum fyrir höndum.