143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hyggst svara flestum þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín hér síðar í dag, en varðandi þessar tvær spurningar sem þingmaðurinn nefnir þá hefur í fyrsta lagi verið staðið við alla samninga sem voru undirritaðir af síðustu ríkisstjórn. Þeir voru ekki rofnir, í það minnsta er mér ekki kunnugt um neitt annað. Ég lét tékka á því þegar hv. þingmaður spurði þessarar spurningar og fékk þau svör að svo hefði ekki verið.

Varðandi stækkun NATO er alveg ljóst að við höfum alltaf verið og verðum mjög opin fyrir því að fjölga aðildarríkjum að NATO. Ég mun velta því alvarlega fyrir mér fram að næsta fundi — það er fundur í júní og svo er aftur leiðtogafundur í Wales í september — hvort við eigum að taka harðari stefnu þegar kemur að því að opna NATO fyrir þeim ríkjum sem bíða núna inngöngu. Það er hins vegar ljóst að til þeirra eru gerðar ákveðnar kröfur. (Forseti hringir.) Við þurfum þá að velta fyrir okkur: Getum við gefið afslátt af þeim kröfum ef við ætlum að hleypa þeim hraðar inn í NATO?