143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:17]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir þessa greinargóðu skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál. Ég ætla að gera það að umræðuefni hér að ég var ánægð með að heyra það hjá utanríkisráðherra hversu skýr afstaða hans og ríkisstjórnarinnar er gagnvart aðgerðum Rússa í Úkraínu.

Á sama hátt og ég taldi rétt að íslenskir ráðamenn tækju þátt í Ólympíuleikunum í Sochi þar sem þeir nýttu hvert tækifæri til að koma á framfæri og samtali orðræðu við Rússa, hvort sem þeir voru háir eða lágir, tel ég að nákvæmlega það sama gildi innan Norðurheimskautsráðsins. Ég geri því athugasemdir við ummæli forseta Íslands um ummæli norska aðstoðarráðherrans á fundi ráðsins. Ég get ekki betur séð en þau ummæli séu í samræmi við norska utanríkisstefnu og ég skil ekki hvað forseti Íslands hefur með það að gera að reyna að átelja viðkomandi ráðherra fyrir þau.

Ég tók eftir því að hv. 4. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, sagði að hann hefði átt í góðu samstarfi við forseta Íslands alla sína tíð sem utanríkisráðherra. Ég vil þá kannski biðja hann um að gefa núverandi ríkisstjórn ráð um það hvernig best er að halda á samstarfi við forsetann þannig að menn séu (Forseti hringir.) að spila í sama liðinu.