143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá skýrslu sem hann hefur gefið hér á Alþingi um utanríkis- og alþjóðamál, bæði prentaða skýrslu og framsöguræðu hans þar sem hann tæpti á öllu því helsta sem er að finna í skýrslunni.

Ég vil strax í upphafi segja, því að það er auðvitað hefðbundinn liður á þingi að ræða utanríkis- og alþjóðamál með skýrslugjöf utanríkisráðherra, að sú skýrsla sem hér liggur fyrir tekur á þeim málum sem við er að fást í utanríkismálum þjóðarinnar í öllum meginatriðum og ég þakka fyrir hana. Ég tel að hún sé vel unnin og vel uppsett.

Ég vil líka segja að ég tel að hæstv. utanríkisráðherra sé lánsamur að búa við þann fjölda starfsfólks sem starfar í íslenskri utanríkisþjónustu bæði hér heima og erlendis og gerir það almennt séð mjög vel. Það er mín reynsla af samskiptum við utanríkisþjónustuna bæði nú og ekki síst á síðasta kjörtímabili þegar ég gegndi formennsku utanríkismálanefndar og átti mikil samskipti við utanríkisþjónustuna að það starfsfólk sem þar starfar sé mjög hæft og vinni störf sín vel í þágu hagsmuna Íslands.

Af þeim málum sem fjallað er um í þessari skýrslu er ekki ráðrúm í tiltölulega stuttri ræðu að fara mjög gaumgæfilega í öll atriði en ég ætla að velja nokkur sem ég ætla að gera hér að umtalsefni.

Í fyrsta lagi eru norðurslóðamál. Fyrsti efniskaflinn í skýrslu utanríkisráðherra fjallar um norðurslóðir. Þar er lögð áhersla á að þær séu áherslusvið íslenskrar utanríkisstefnu. Það má segja að mikilvægi norðurslóða hafi verið að aukast og augu manna hafi verið að opnast fyrir því á umliðnum árum hvað það svæði er mikilvægt í mörgu tilliti, bæði vegna þeirra tækifæra sem liggja í norðurslóðum og þeirra ógna sem við stöndum frammi fyrir vegna hlýnunar andrúmsloftsins og bráðnunar íss á norðurslóðum. Málefni norðurslóða hafa í vaxandi mæli orðið áherslusvið í utanríkisstefnu Íslands, bæði hjá núverandi og fyrrverandi hæstv. ríkisstjórn. Þetta sjáum við líka í utanríkisstefnu annarra ríkja á norðurslóðum sem hafa verið að móta sér stefnu í málefnum norðurslóða, setja fram sín áherslumálefni og færa þau í raun hærra á dagskrá hvert hjá sér. Þetta á bæði við um minni og stærri ríki í norðurslóðasamstarfinu.

Ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra. Ég tel mikilvægt að við sinnum þessu af kostgæfni og leggjum talsvert í samstarfið á norðurslóðum. Þess vegna er mikilvægt að Alþingi hafi samþykkt sérstaka stefnumótun í málefnum norðurslóða sem er framfylgt núna og unnið eftir og hið sama á við um samstarf okkar við önnur ríki á svæðinu.

Ég tel líka ástæðu til að leggja áherslu á samstarf við stofnanir, háskólasamfélag, frjáls félagasamtök og samtök frumbyggja á norðurslóðum. Ég tel að þetta séu allt aðilar sem eiga ríkra hagsmuna að gæta og þurfi að koma að umræðuvettvangi um þau málefni sem við er að glíma á norðurslóðum.

Ég vil leyfa mér að inna hæstv. ráðherra eftir einu í tengslum við norðurslóðamálið. Það lýtur að svokölluðu fimmríkjasamstarfi. Fimm af þeim átta ríkjum sem eiga fulla aðild að Norðurskautsráðinu tóku upp á því fyrir nokkru síðan að halda sérstaka fundi sín á milli um afmörkuð mál á norðurslóðum og skildu þar eftir Ísland, Svíþjóð og Finnland. Að því er Ísland varðar tel ég fullkomlega tilefnislaust og óeðlilegt að skilja það eftir. Ísland er eins og hæstv. ráðherra gat um það ríki á norðurslóðum þar sem allir íbúar tilheyra norðurslóðasvæðinu og þess vegna er það visst áhyggjuefni ef Ísland er undanskilið í slíku samráði. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann geti sagt okkur eitthvað um stöðu þeirra mála, hvort slíkir fundir eru á döfinni eftir hans vitneskju og hvort íslensk stjórnvöld hafi áfram gert athugasemdir við þetta.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara mikið í þann kafla sem fjallar um alþjóðlegt viðskiptasamstarf. Ég gat um það í andsvari við hæstv. ráðherra áðan að ég hefði áhyggjur af því að við værum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með hvalveiðum okkar og tilraunum til að koma hvalaafurðum á markað, sem ég tel að gangi nú heldur illa. Ég tel að við séum að fórna miklum hagsmunum þar, einkum og sér í lagi viðskiptahagsmunum bæði í vestri og austri. Þá á ég við Bandaríkin og Evrópumarkað en einkum og sér í lagi er þetta mál viðkvæmt á Bandaríkjamarkaði.

Ég ætla að víkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og tel ástæðu til að dvelja nokkuð við það málefni. Öllum er ljóst, eins og kemur fram í skýrslunni, að við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að í vaxandi mæli rekst umfang samningsins eða ný málefni sem koma til úrlausnar í tengslum við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði á við stjórnarskrá okkar. Allir eru orðnir meðvitaðir um þetta og tala um það þegar þessi mál ber á góma. Ég tel hins vegar mikilvægt að menn reyni að kafa ofan í það og átta sig á því hvernig þeir ætla að bregðast við. Það tengist kannski umræðunni um fullveldismál sem oft kemur upp þegar rætt er um meðferð utanríkismála og hvernig fjallað er um þau í stjórnarskránni. Í þeirri umræðu hefur ítrekað verið minnt á nauðsyn þess að í stjórnarskránni sé að finna heimildir til framsals á ríkisvaldi til alþjóðastofnana.

Auðvitað blandast þetta umræðunni um Evrópusambandsaðild sem ég ætla ekki að koma inn á í þessari umræðu, en ég vil þó segja að ég tel — og ég held að um það liggi fyrir skoðun mjög margra fræðimanna í alþjóðastjórnmálum — að hvergi sé um að ræða eins mikið framsal á fullveldi eins og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það á við um Ísland líka vegna þess að það fullveldisafsal sem gefið er með stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna er algerlega ljóst. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru skuldbundin að framfylgja ákvörðunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna óháð því hvort þau hafa verið stuðningsaðilar slíkra ákvarðana eða ekki. Það á sem sagt við um þvingunaraðgerðir, refsiaðgerðir og hernaðaríhlutanir. Ég tel að í raun megi halda því fram að hvergi sé eins mikið framsal á fullveldi eins og í gegnum aðild að Sameinuðu þjóðunum. Þó erum við aðilar að Sameinuðu þjóðunum án þess að nokkur ákvæði sé að finna í íslenskri stjórnarskrá sem heimili slíkt.

Þetta er bara krókur í þessa umræðu sem ég vil vekja athygli á og tengist fullveldisumræðunni almennt séð. Þennan krók tók ég út frá Evrópska efnahagssvæðinu vegna þess að ég er einnig þeirrar skoðunar að í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sé líka að finna mikið framsal á fullveldi okkar. Það á þó að heita þar í orði kveðnu að við getum neitað að innleiða tilskipanir. Það getum við ekki með ályktanir Sameinuðu þjóðanna en það á að heita í orði kveðnu um Evrópska efnahagssvæðið að við getum neitað að innleiða tilskipanir. Það hefur ekki gerst. Ef það gerist er viðbúið að við rekumst á 104. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem gæti sett samninginn í uppnám, eins og hér var nefnt.

Spurningin er þess vegna: Hvernig ætlum við að taka á þessum málum? Ætlum við að fara í einhverja raunverulega athugun? Menn hafa verið að skoða möguleika sem Evrópusambandið gæti fellt sig við og gæti rúmast innan okkar stjórnskipunar, þ.e. byggða á tveggja stoða lausninni um Evrópska efnahagssvæðið, en það eru mikil áhöld um að það verði hægt. Ég tel reyndar að það sé ófært. Ég tel að þær hugmyndir sem menn hafa verið að skoða, um að fara einhvers staðar bakdyramegin þar inn, séu á skjön við íslenska stjórnarskrá og hef lýst þeirri skoðun minni í utanríkismálanefnd. Ég tel mikilvægt að yfir þetta verði farið, annaðhvort í utanríkismálanefnd eða jafnvel að hæstv. utanríkisráðherra setji sérstaka þverpólitíska nefnd í að skoða þær lausnir sem þarna kunna að vera uppi og hvaða hagsmunir kunni að vera í húfi ef okkur tekst ekki að róa fyrir þá vík sem er fyrirsjáanleg á næstunni. Ég vil velta því hér aðeins upp.

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að ræða um þjóðaröryggisstefnuna sem hæstv. utanríkisráðherra kom einnig inn á. Ég fagna því að góð samstaða er um meginatriði þessarar stefnu. Það eru tíðindi í íslenskum stjórnmálum. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum viljað leggja okkar af mörkum til að sem víðtækust samstaða sé um stefnu Íslands í þjóðaröryggismálum, stefnu sem taki mið af þeim breyttu aðstæðum sem við höfum reynt að segja skilið við, þ.e. kalda stríðið sem lauk fyrir um 20 árum. Hver veit nema það hefji innreið sína aftur? Við vonum ekki, að sjálfsögðu. Í þessari stefnumótun er sem sagt horfið frá þröngri skilgreiningu á öryggi þjóða og öryggishugtakið víkkað út með það fyrir augum að ná yfir alls konar nýjar ógnir, svo sem hnattræna og þverþjóðlega, samfélagslega og mannlega áhættuþætti eins og skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk, efnahagskreppu, ólöglega fólksflutninga og mansal, matvælaöryggi, náttúruhamfarir, farsóttir, umhverfisógnir, fjarskiptanet og orkuöryggi. Við erum sammála þessari nálgun og þess vegna erum við aðilar að þeirri stefnumótun sem hér liggur til grundvallar.

Við höfum hins vegar gert athugasemdir og fyrirvara að því er varðar þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu og í loftrýmiseftirliti sem við teljum ekki algerlega í samræmi við hina nýju nálgun á öryggishugtakinu. Við teljum að enn á ný sé verið að leggja megináherslu á hernaðarþættina og við erum einfaldlega ekki sammála því.

Hér var aðeins rætt um hugsanlega stækkun á Atlantshafsbandalaginu í ljósi atburða sem eiga sér stað í Úkraínu. Ég ætla ekki að hafa sérstaka skoðun á því. Ég hef sagt það áður, þegar Atlantshafsbandalagið var stækkað á síðasta kjörtímabili, að ég virði sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Ef þjóðir taka ákvörðun um að gerast aðilar að bandalagi eins og Atlantshafsbandalaginu ætla ég ekki að hafa sérstaka skoðun á því hér uppi á Íslandi fyrir aðra en ég hef skoðun á því fyrir mig, fyrir Ísland, sem er kunn.

Ég leyfi mér að víkja aðeins að því ástandi sem er að skapast í heiminum. Auðvitað erum við upptekin af Úkraínu í augnablikinu en það eru líka ýmis önnur svæði sem falla aðeins í skuggann en hafa verið mikið í fréttum að undanförnu. Það er t.d. Sýrland. Það er mjög alvarleg staða uppi í Sýrlandi og hún batnar ekki þó að kastljósið fari í svipinn þaðan og yfir á Úkraínu og Krímskaga. Ástandið þar er jafn slæmt eftir sem áður. Við þurfum að vera vakandi gagnvart því að missa ekki sjónar á þeim vanda og þeim hörmungum sem hrjá íbúa Sýrlands þó að við horfum í svipinn annað og kastljós fjölmiðla og þjóðarleiðtoga sé á Úkraínu. Ég tel mikilvægt að virkja Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, sem hefur verið gert í þessu ferli. Í raun og veru má segja að þessi stofnun, ÖSE, hafi gengið í endurnýjun lífdaga vegna þeirra aðstæðna sem komu þarna upp.

Ég tek að sjálfsögðu undir þá gagnrýni sem hefur komið fram á broti á alþjóðalögum, sem ég tel skýrt brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, að ætla að innlima Krímskaga í Rússland. Ég tel að það sé algerlega yfir allan vafa hafið. Auðvitað er hægt að horfa á þessi mál frá mismunandi sjónarmiðum. Þarna er líka gömul og ný saga sem á þátt í því sem er að gerast en það breytir ekki því að þessi atburður, innlimun Krímskaga í Rússland, er brot á alþjóðalögum og það á að gagnrýna. Ég tel að við komumst ekki áfram með þessi mál nema í gegnum samræðu og samtök. Það verður að finna friðsamlega lausn á þessu máli að mínu viti. Ég vil leggja áherslu á hlutverk Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, sem ég veit að utanríkisráðherra hefur gert og ég er því sammála að þar eigum við að beita okkur.

Virðulegi forseti. Ræðutímanum er lokið áður en við er litið. (Forseti hringir.) Ég átta mig á því núna að ég er aðeins kominn yfir helminginn af því sem ég ætlaði að segja í þessari ræðu og verð greinilega að eiga það inni að fara í seinni ræðu (Forseti hringir.) síðar á þessum degi, en læt ræðu minni lokið í bili.