143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[13:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna sem hér liggur fyrir. Eins og venja er þá er hér um að ræða mjög greinargóða yfirsýn yfir þau verkefni sem unnið hefur verið að á vegum ríkisstjórnar og utanríkisráðuneytisins, sérstaklega á sviði utanríkis- og alþjóðamála. Margt í skýrslunni gefur tilefni til ítarlegri umræðu sem kannski gefst ekki kostur á í stuttri umræðu af þessu tagi en ég vil þó drepa á nokkra þætti sem mér finnast skipta verulegu máli.

Í upphafi vildi ég segja að eins og þessi skýrsla liggur fyrir þá ber hún þess merki að í afar mörgum þáttum er góð samfella í íslenskri utanríkisstefnu. Þrátt fyrir stjórnarskipti á síðasta ári og raunar stjórnarskipti á fyrri árum líka eru hér meginþættir sem allvíðtæk samstaða er um og það skilar sér í því að ekki er um að ræða kollsteypur í veigamiklum atriðum. Undantekning frá því er spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu sem ég mun koma nánar inn á hér á eftir, en varðandi flesta aðra þætti má segja að samstaðan um meginstefnuna sé allvíðtæk þó að auðvitað komi upp ágreiningur um einstök útfærsluatriði og framkvæmd einstakra liða frá degi til dags eins og eðlilegt er.

Dæmi um þessa samfellu er það sem lýtur að samstarfi á norðurslóðum, sem er mikið áhersluefni hjá núverandi ríkisstjórn en var það raunar líka hjá fyrri ríkisstjórn. Má segja að mikilvægi þessa málaflokks hafi farið mjög vaxandi sem birtist í þingsályktun sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili, aukinni áherslu á það í störfum utanríkisþjónustunnar og aukinni þátttöku Íslendinga í virku samstarfi innan norðurskautsráðsins og einnig í ýmsu öðru fjölþjóðlegu samstarfi sem því tengist.

Annað atriði sem einnig er lykilatriði í utanríkisstefnu okkar er náið og gott samstarf við grannþjóðir innan Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins, aukið samstarf við Eystrasaltsríki og annað samstarf af því tagi sem er án efa afar mikilvægt fyrir okkur þótt margt af því starfi sem þar er unnið fari ekki hátt í opinberri umræðu.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna er áhersla á viðskiptasamstarf og aukin alþjóðleg viðskipti þar sem ekki hefur orðið nein veigamikil stefnubreyting um mjög langt skeið. Ísland hefur tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi til að auka frelsi í milliríkjaviðskiptum og jafnframt byggt upp net fríverslunarsamninga í gegnum EFTA en líka gert beina tvíhliða fríverslunarsamninga við einstök ríki. Þar er um að ræða mikil tækifæri sem sjálfsagt er fyrir okkur að nýta á komandi árum í auknum mæli. Eins og ég segi hefur í raun verið allvíðtæk samstaða um þetta atriðið í þinginu sem hefur skilað sér í því að verið hefur samfella í störfum ríkisstjórna og ráðherra á þessu sviði. Nýjasta dæmið um það er þegar núverandi þing staðfesti fríverslunarsamning við Kína sem unnið hafði verið að í tíð a.m.k. tveggja síðustu ríkisstjórna og undirritaður var í tíð síðasta utanríkisráðherra hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á ákveðna þætti í umræðunni. Það er annars vegar þátttaka okkar í samstarfi á sviði öryggis- og varnarmála, en eins og ráðherra nefndi þá skiptir tvíhliða samningur okkar við Bandaríkin veigamiklu máli þó að eðli hans hafi breyst á síðustu árum. Þrátt fyrir að heimsmyndin hafi breyst töluvert á síðustu áratugum tel ég að samstarfið innan NATO verði áfram hornsteinn í öryggis- og varnarmálastefnu okkar og eins og ég gat um í andsvörum áðan held ég að nýlegir atburðir minni okkur kannski á hve mikilvægt er að taka þátt í samstarfi vestrænna lýðræðisríkja á þessu sviði þar sem gagnkvæmar skuldbindingar um varnir gegna lykilhlutverki sem skiptir óneitanlega gríðarlega miklu máli á viðsjárverðum tímum, jafnvel í okkar heimshluta.

Hins vegar vil ég nefna sérstaklega samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Í umræðum að undanförnu hefur að mér finnst oft verið gert lítið úr gildi samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og frekar horft á undantekningartilfelli sem valdið geta núningi í sambandi við rekstur þess samnings frekar en á þá mikilvægu þætti, að grundvallarþáttum samningsins sé veitt athygli sem eðlilegt væri. Þá er ég fyrst og fremst að tala um að með aðild okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði höfum við miklu víðtækari aðgang að evrópskum markaði en við gætum haft með öðrum hætti. Evrópska efnahagssvæðið tryggir í raun á hverjum degi greið viðskipti milli Íslands og þessa stóra markaðar, en telja má að um 2/3 utanríkisviðskipta okkar séu við þetta svæði og á hverjum degi þjónar samningur um hið Evrópska efnahagssvæði tilgangi sínum að flestu leyti mjög vel. Þess vegna hef ég í opinberri umræðu verið mjög varfærinn þegar menn hafa talað um gallana, sem vissulega eru fyrir hendi, en þegar við ræðum þessi mál verðum við að hafa í huga að mjög mikið af þeim kjörum sem við njótum í viðskiptum við Evrópulönd eru til komin vegna samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði þótt við kunnum að gleyma því í dagsins önn og lítum hugsanlega á það sem sjálfgefinn hlut.

Að því sögðu vil ég taka undir sjónarmið sem heyrst hafa í umræðunni í dag, að það eru ákveðnir gallar á Evrópska efnahagssvæðinu, ákveðnir ókostir fylgja því hvernig það samstarf er uppbyggt. Árekstrarnir sem við verðum vör við hér í þinginu snerta kannski fyrst og fremst það þegar tilskipanir eða reglugerðir sem eiga rót sína að rekja til Evrópusambandsins passa illa við stjórnarskrá okkar. Nokkur dæmi eru um það frá undanförnum árum að þingið hafi með löggjöf sinni farið alveg út á ystu nöf eða alla vega á mjög grátt svæði þegar innleiddar hafa verið gerðir af þessu tagi. Þessi dæmi eru ekki endilega svo mörg en þau hafa auðvitað vakið mikla athygli í hvert sinn.

Það er líka rétt eins og komið hefur fram í opinberri umræðu að fleiri dæmi af þessu tagi eru í vinnslu, þ.e. þau eru með einum eða öðrum hætti í pípunum og munu á komandi missirum leiða til þess að þingið þurfi að taka afstöðu til spurninga af því tagi hvernig einstakar reglur á þessu sviði fari saman við stjórnarskrána og þá meginreglu að valdið, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, sé hjá innlendum aðilum. Þarna er um að ræða núning og viðfangsefni sem mikilvægt er að finna lausn á. Í umræðum, sérstaklega í tengslum við stjórnarskrá, hafa komið upp ágætlega rökstudd sjónarmið um að a.m.k. hluta þessara vandamála mætti leysa með því hafa í stjórnarskrá ákvæði sem gæfi möguleika til þess að framselja það sem talað hefur verið um, þ.e. afmarkaða þætti ríkisvalds á takmörkuðu sviði til alþjóðlegra stofnana sem við ættum aðild að. Fyrirmyndir að slíkum ákvæðum eru víða fyrir hendi í löndum sem búa við svipaða réttarskipan og við. Staðreyndin er sú að þetta er meðal þeirra viðfangsefna sem unnið er að í stjórnarskrárnefnd sem forsætisráðherra skipaði í haust og er nú að störfum.

Í því sambandi er hins vegar ljóst að þrátt fyrir að lausn af þessu tagi gæti fallið vel að því sem við getum kallað tveggja stoða kerfi EES-samningsins, þ.e. þar sem aðildarríki EFTA megi framselja vald ekki til stofnana ESB heldur til stofnana í EFTA-stoðinni, þá eru ekki öll vandamál leyst með breytingu af því tagi. Nefnt hefur verið í umræðunni að tilskipun Evrópusambandsins á sviði fjármálaeftirlits sem gerir ráð fyrir einni Evrópusambandsstofnun sem hefur þetta eftirlit með höndum, mundi t.d. ekki rúmast innan þeirrar skilgreiningar sem helst hefur verið í umræðunni um möguleika til framsals til stofnunar sem Ísland ætti aðild að. Það er því ekki víst, og ég vil bara benda hv. þingmönnum á að jafnvel þótt stundum sé talað um stjórnarskrárbreytingu af þessu tagi sem allsherjarlausn í þessu sambandi þá er hún það ekki. Það geta enn verið fyrir hendi vandamál sem tengjast því að vitneskja eða vitund Evrópusambandsmegin um það sem við köllum tveggja stoða kerfi EES-samningsins virðist ekki alltaf vera mjög ofarlega á baugi þar. Það kostar vinnu og fyrirhöfn af okkar hálfu að halda fram sjónarmiðum okkar, sem í mörgum tilvikum eru líka sjónarmið Norðmanna, ekki alltaf en í mörgum tilvikum, það kostar vinnu og fyrirhöfn af okkar hálfu að halda Evrópusambandinu við efnið hvað þetta varðar af því að þegar samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði var gerður á sínum tíma var gengið út frá ákveðnu grundvallarskipulagi í því samstarfi. Því fyrirkomulagi verður ekki breytt einhliða smám saman af Evrópusambandinu. Ég dreg enga dul á það að það kann á köflum að vera við ramman reip að draga í því sambandi en það er hins vegar mikilvægt að því sjónarmiði sé haldið á lofti.

Út af þessu fagna ég líka því sem kemur fram í skýrslu og ræðu ráðherra um aukna áherslu á hagsmunagæslu og erindrekstur af okkar hálfu gagnvart Evrópusambandinu og á Evrópuvettvangi, bæði gagnvart fjölþjóðlegum stofnunum og einstökum ríkjum. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir okkur og ég held að mikilvægi þess að við ræktum tengsl að þessu leyti, sinnum þeim og höldum fram sjónarmiðum okkar, sé jafnvel enn þá meira þegar fyrir liggur að ekki verður gengið í Evrópusambandið á næstu árum, sem ég held að hv. þingmenn geti verið sammála um að er staðreynd. Hvað sem menn vilja gera varðandi ferlið þá verður Ísland ekki aðili að Evrópusambandinu á næstu árum. Ég held að það getum við a.m.k. verið sammála um sem staðreynd en ekki sem skoðun.

Hæstv. forseti. Ég kemst ekki hjá því í lokin að ræða aðeins aðildarferlið þótt tíminn sé verulega takmarkaður. Þar birtist helsta stefnubreyting núverandi ríkisstjórnar frá fyrri ríkisstjórn á sviði utanríkismála. Það liggur fyrir að núverandi ríkisstjórn hefur ekki hug á því að beita sér fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið, hún hefur ekki hug á því að halda aðildarferlinu áfram eins og það var upp lagt og sú stefna hefur komið skýrt fram. Menn geta vissulega deilt um það hvernig nákvæmlega er staðið að því hvort draga eigi umsókn til baka, láta málið vera í því frosti sem það þegar hefur verið um nokkurt skeið eða hvaða skref verða tekin að öðru leyti. En hins vegar er það skoðun mín og hefur áður heyrst í ræðustól Alþingis að ég tel að það sé hreinlegast og heppilegast að við höfum línur skýrar að þessu leyti, þ.e. að afstaða ríkisstjórnar og Alþingis sé skýr hvað þessi mál varðar, að ekki verði látið í veðri vaka að ætlunin sé að halda ferli áfram sem ekki er stuðningur við hér í þessum sölum.