143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[13:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta ekkert sérlega virðingarvert gagnvart meira en 50 þús. manns sem hafa kallað eftir því að þjóðaratkvæðagreiðsla verði um málið og fólk fái að svara því hreint út hvað verði gert. Ríkisstjórnin ætti síðan að hafa manndóm í sér til að vinna samkvæmt þeirri niðurstöðu. Að segja fyrir fram: Jú, við erum fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu en við treystum okkur ekki til að framfylgja niðurstöðu hennar ef hún er ekki á þann veg sem okkur líkar — er ekki boðlegt að mínu mati og er ekki í þeim anda sem Sjálfstæðisflokkurinn skrifaði í kosningastefnu sína í aðdraganda kosninga né heldur það sem talsmenn hans sögðu í aðdraganda kosninga.

Virðulegi forseti. Mér er svo sem sama hvort Sjálfstæðisflokkurinn ákveður að standa við kosningaloforð sín gagnvart sínum kjósendum en mér er ekki sama um ásýnd stjórnmálanna og stjórnmálin hefur sett verulega niður við (Forseti hringir.) ákvörðun þessarar ríkisstjórnar.