143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[13:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur alltaf legið fyrir að til þess að fá samþykkta þjóðaratkvæðagreiðslu þá þarf að koma þingsályktunartillaga þess efnis inn í þingið, hún þarf að hljóta þar stuðning. Ég er þeirrar skoðunar og lýsti því hér áðan — og tala þar svo sem ekki fyrir aðra en sjálfan mig — að komi til þjóðaratkvæðagreiðslu teldi ég eðlilegt að spurningin væri sú hvort fólk samþykkti eða legðist gegn þeirri niðurstöðu sem gæti orðið niðurstaða þessa þings eða meiri hluta þess að afturkalla umsóknina frá 2009, þ.e. að sú ákvörðun, sem væntanlega yrði tekin hér í þinginu, yrði þá borin undir atkvæði.

Það segir ekkert um það hvort eða hvenær hér skapaðist meiri hluti að nýju fyrir því að sækja um aðild eða halda viðræðum áfram. Ef til þess kæmi, hugsanlega á næsta kjörtímabili, að menn vildu fara í þann leiðangur aftur þyrfti að byrja ferlið (Forseti hringir.) með atkvæðagreiðslu, væntanlega, þjóðaratkvæðagreiðslu, um það hvort hefja skyldi viðræður. (Forseti hringir.) Þetta segi ég með öllum þeim fyrirvörum að við erum rétt að hefja umfjöllun (Forseti hringir.) í okkar ágætu utanríkismálanefnd um þetta mál og ég lýsti því jafnframt í andsvörum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur að í mínum huga væri málið enn töluvert opið.

Ég bið hv. forseta afsökunar á að hafa tekið þennan tíma í að svara þessu ítarlega.