143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[13:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál verður alltaf skrautlegra og skrautlegra af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Hér gerist það að einn af helstu talsmönnum Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum, hv. þm. Birgir Ármannsson, sem gegnir embætti formanns utanríkismálanefndar, kemur fram með algerlega splunkunýja hugmynd. Hún felur það í sér að í reynd verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort það verði þjóðaratkvæðagreiðsla.

Hv. þingmaður segir að það sé hans skoðun, hann er einn helsti talsmaður flokksins í utanríkismálum, að fyrst þurfi þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort hugsanleg samþykkt meiri hlutans á því að afturkalla tillöguna um aðild að Evrópusambandinu verði staðfest af þjóðinni. Ef þjóðin fellir það þá segir hann að það þurfi aðra þjóðaratkvæðagreiðslu til að halda áfram um það hvort eigi að halda áfram viðræðum. Þetta hef ég aldrei heyrt. Mér sýnist, frú forseti, af því að ég vil ekki taka of mikinn tíma í þetta, sem Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn í algert öngstræti með þessa sérkennilegu hugmyndaflækju sína.