143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[13:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að sú hugmynd sem ég er að reifa hér hafi nú verið nefnd í viðtölum, meðal annars við formann Sjálfstæðisflokksins ekki alls fyrir löngu. En ég tek það fram, af því að ég er nú sáttfús maður og samningsfús, að í stað þess að hanga á einhverjum orðalagsatriðum þá held ég að aðalatriðið sé að ná einhverjum meginmarkmiðum fram. Auðvitað eru þau ólík í okkar tilviki, mínu og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem er einlæglega þeirrar skoðunar að ljúka beri samningum við Evrópusambandið og af ræðum hans í langan tíma má ekki ráða annað en hann telji að okkar hag sé best borgið með því að verða aðilar að Evrópusambandinu.

Ég er gagnstæðrar skoðunar og tel að við eigum ekki að halda áfram. Hvernig nákvæmlega það er formað er ekki aðalatriði í mínum huga, bara svo að það sé tekið fram. Mér finnst í raun og veru merkilegasta skrefið hafa verið stigið með því að stöðva þetta ferli eins og gerðist þegar á síðasta ári.