143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[14:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi spurninguna um stjórnarskrána og hið Evrópska efnahagssvæði þá er ég þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag sem gengið var út frá þegar samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði var gerður 1994 hafi samræmst stjórnarskrá. Þar var gert ráð fyrir tveggja stoða kerfi en jafnframt gert ráð fyrir því og gengið út frá því að æðsta vald í sviði löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdarvalds væri í höndum innlendra aðila. Í meginatriðum hefur þetta staðist tímans tönn en eins og ég nefndi í ræðu minni þá eru núningsfletirnir að verða fleiri. Það hafa komið upp nokkur tilvik þar sem á mjög afmörkuðum sviðum hefur verið farið út á grensu eða jafnvel yfir hana í einstökum tilvikum, alltaf tekið fram að í hverju tilviki skapi það ekki fordæmisgildi.

Varðandi nauðsynina á breytingu þá verð ég að koma nánar inn á það í síðara andsvari ef ég fæ tækifæri til þess.