143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[14:43]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þau orð hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar að öryggismál geti valdið því að óeðlilegar takmarkanir verði á friðhelgi einkalífs. Auðvitað er það meginhlutverk stjórnvalda að tryggja öryggi borgaranna en á sama tíma verður alltaf að setja þetta á vogarskálar mikilvægis, sem sagt að það að tryggja öryggi geri ekki að verkum að hægt sé að rjúfa persónufrelsi og friðhelgi einkalífs. Þetta er því mjög vandmeðfarið.

Af því að við erum að tala um netið og misnotkun á netinu, og hvaða áhrif slík misnotkun getur haft á innviði samfélagsins, getur valdið hruni í samfélaginu — ég endurtek þær áhyggjur mínar og tek undir það með mörgum sem telja þetta verði næsta form sem stríðsrekstur mun taka á sig.

Ég vil líka lýsa áhyggjum mínum af nýlegum fréttum af því að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna telur sig nú geta hlerað og tekið upp öll símtöl heillar þjóðar og geymt, en ekki fæst uppgefið hvaða þjóð um er að ræða. Þessar fréttir vekja ugg í brjósti.