143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[14:48]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góðar umræður hér í dag. Það er mjög gefandi og fræðandi fyrir nýgræðing eins og mig að hlusta á reyndara fólk í þingsal. Mér þykir skýrslan líka nokkuð góð sem við höfum verið að ræða um.

Utanríkisstefna okkar Íslendinga hefur ávallt snúist um að tryggja náið samstarf við nágranna okkar, vinaþjóðir og bandamenn. Um stefnuna hefur ríkt sátt óháð hvaða stjórnvöld hafa setið við stjórnvölinn hverju sinni. Mér þótti samlíking hv. kollega míns, Óttars Proppés, nokkuð góð áðan þegar hann talaði um okkur sem eina stóra fjölskyldu, að við rifumst kannski um hver ætti að ryksuga en í meginatriðum stæðum við saman og værum sammála um aðalatriðin. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni og tek undir það.

Mig langar í þessari umfjöllun að gera 3. kafla skýrslunnar að aðalumræðuefni mínu, þ.e. kaflann um alþjóðaviðskiptin. Staða okkar Íslendinga í utanríkisviðskiptum er að mörgu leyti öfundsverð. Við höfum til dæmis tryggt aðkomu okkar að markaði Evrópu með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES. Þess má geta að árið 2012 fóru 78% af útflutningi okkar þangað og 61% af innflutningi okkar kom af því svæði þannig að það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa þennan samning.

Við höfum verið í samstarfi við Fríverslunarsamtök Evrópu og erum hluti af stóru neti fríverslunarsamninga. Þar að auki höfum við gert fríverslunarsamning við Kínverja og Færeyinga. Í þessu felst frelsi og sveigjanleiki sem styrkir íslenskt atvinnulíf verulega. Slíkum sveigjanleika og drifkrafti væri ekki til að dreifa nema vegna sjálfstæðis okkar til athafna á sviði utanríkisviðskipta.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að stefna Íslands í utanríkisviðskiptum muni taka mið af þeim öru breytingum sem eiga sér stað á efnahagskerfum heimsins. Möguleikar til að auka útflutning til svæða þar sem eftirspurn vex hratt á komandi árum verði kannaðir frekar og tengsl við viðkomandi svæði styrkt. Áhersla verði jafnframt lögð á gerð fleiri fríverslunarsamninga, bæði tvíhliða og á vettvangi EFTA. Leitað verði leiða til að fullnýta möguleika sem felast í þeim fríverslunarsamningum sem Ísland á þegar aðild að.

Virðulegi forseti. Þetta þykir mér góð stefna því að hún felur í sér að stjórnvöld hér horfi til allra átta, horfi á þá möguleika sem gott samstarf og viðskipti við þjóðir um heim allan fela í sér. Auðvitað eigum við Íslendingar að nýta möguleika okkar sem sjálfstæð þjóð og gera sem flesta fríverslunarsamninga þar sem það veitir okkur aukinn markaðsaðgang og eykur þar með hagvöxt og hagsæld hér á landi.

Nú er staðan þannig að Ísland er ásamt EFTA með 26 fríverslunarsamninga við 68 ríki en EES-samningurinn er einn samningur við 28 ríki. Því til viðbótar eru tvíhliða samningar við annars vegar Færeyjar og hins vegar Kína, eins og áður var nefnt. Samtals eru viðskipti við þau ríki sem við erum með fríverslun við utan EES- og EFTA-ríkjanna þriggja um 10% viðskiptanna. Mest eru þau við Kanada, Úkraínu, Hong Kong og Suður-Kóreu. Þess má geta að EFTA á nú í viðræðum við allmörg ríki, m.a. Indland, Malasíu og Víetnam, eins og kemur fram í skýrslunni, og á döfinni eru viðræður við Tæland og jafnvel Filippseyjar. Þá horfir EFTA nú einnig til Afríku og er þar Nígería efst á blaði.

Nýir markaðir fyrir íslenskan varning og hugvit hafa orðið til á skömmum tíma og íslenskt athafnafólk er að störfum um heim allan við að framleiða og markaðssetja vörur sínar. Ör hagvöxtur og þróun í alþjóðlegum viðskiptum veitir okkur spennandi markaðstækifæri í nýjum ríkjum á borð við Brasilíu, Indlandi og Víetnam svo eitthvað sé nefnt. Aukinn kaupmáttur í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku og breyttar neysluvenjur fólks eru hluti alþjóðavæðingarinnar og með þessum breytingum skapast vissulega ný tækifæri fyrir okkur hér.

Víkjum nú aftur að fríverslunarsamningunum. Fríverslunarsamningarnir eru sá grunnur eða tæki sem stjórnvöld leggja fyrirtækjum til í því skyni að bæta samkeppnisstöðu þeirra og bæta aðgengi að viðkomandi mörkuðum, m.a. með niðurfellingu eða lækkun tolla. Fríverslunarsamningar auka öryggi í alþjóðaviðskiptum og með samningunum er settur á fót samráðsvettvangur þar sem hægt er að ræða og leysa vandamál sem fyrirtæki kunna að upplifa í viðskiptum milli ríkjanna. Sumir fríverslunarsamningar eru vel nýttir en aðrir síður. Hins vegar eru þeir tæki til framtíðar og oft verða breytingar á því hvert hagstæðast er að selja hverju sinni eða að hefðbundnir markaðir geta brugðist eða breyting orðið á eftirspurn eða jafnvel neyslu. Fríverslunarsamningarnir búa þannig í haginn til framtíðar.

Viðskipti við Kanada eru til dæmis að aukast nú meira en fimm árum eftir að samningurinn tók gildi. Þar kemur til stóraukið og reglubundið flug Icelandairs sem skapar ný tækifæri fyrir útflytjendur. Ljóst er að allflest ríki heims leitast við að gera sem flesta fríverslunarsamninga. Þar hefur EFTA verið í fararbroddi og fá ríki sem nýtt geta jafn þéttriðið net fríverslunarsamninga og það.

Fríverslunarsamningurinn við Kína er afar stórt skref og er fyrsti samningurinn sem kínversk stjórnvöld gera við evrópskt ríki. Ástæða þess að íslensk stjórnvöld sömdu við Kína var mikill áhugi hérlendra fyrirtækja á að sækja fram á þennan mikilvæga og vaxandi markað. Tækifærin eru óendanleg og samningurinn skapar Íslandi sérstöðu og fyrirtækjum í útflutningi sem innflutningi betri kjör og þar með betri samkeppnisstöðu en fyrirtækjum frá ríkjum sem ekki njóta slíkra kjara.

Útflutningur er vaxandi til Kína þótt hann sé enn lítill í samanburði við okkar helstu markaðssvæði en tækifæri er nú fyrir hendi að auka hann. Bætt kjör almennings í Kína og þar með neysla hafa drifið áfram innflutning til Kína sem er mun meiri nú en áður og er þar hlutur lúxusvarnings að aukast. Þar sjá fyrirtæki sér leik á borði, m.a. með dýrari fiskafurðir, matvæli og hátæknibúnað. Nefna má lýsi, íslenska hönnun og snyrtivörur.

Þegar við berum fríverslunarnet okkar saman við önnur ríki má segja að EFTA hafi samið við fleiri ríki en almennt er um önnur ríki. Hins vegar hafa ríki eins og ESB og Bandaríkin fjölgað mjög samningum og viðræðum á undanförnum árum. Aukin verslun og alþjóðleg viðskipti skapa störf og auka hagvöxt og það skýrir áhuga ríkja nú á því að ganga til viðræðna hvert við annað um afnám hafta og hindrana í viðskiptum með gerð fríverslunarsamninga. Ef litið er til verðmætis vöruviðskipta eru EFTA-ríkin þriðji mikilvægasti viðskiptaaðili Evrópusambandsins, næst á eftir Bandaríkjunum og Kína. Á sviði þjónustu eru EFTA-ríkin annar mikilvægasti viðskiptaaðilinn, næst á eftir Bandaríkjunum. EFTA er þannig afar sterkt bandalag sem skiptir máli í alþjóðlegum viðskiptum.

Íslensk stjórnvöld hafa einnig gert fjölda loftferðasamninga og fjárfestingarsamninga, eins og fyrr segir, í því skyni að aðstoða fyrirtæki í að sækja fram á alþjóðasviðinu. Loftferðasamningar tryggja rétt flugfélaga sem skráð eru á Íslandi til að fljúga um lofthelgi og til og frá þeim ríkjum sem samningarnir ná til. Stöðugt vaxandi umsvif íslenskra flugrekenda hafa kallað á aukna áherslu á gerð tvíhliða loftferðasamninga við sem flest ríki. Samningagerð er í höndum utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis í nánu samráði við hagsmunaaðila.

Árið 2013 höfðu stjórnvöld gert 81 loftferðasamning. Í flestum samningana hefur náðst verulegur árangur í átt til aukins frelsis í flugsamgöngum en það skapar ný tækifæri fyrir íslenska flugrekendur til áætlunarflugs eða óreglubundins flugs með farþega og vörur. Um tíu fjárfestingarsamningar hafa verið gerðir en stjórnvöld ætla nú að gera átak í því að fjölga þeim.

Herra forseti. Stefna ríkisstjórnarinnar í utanríkisviðskiptum tekur mið af þeim öru breytingum sem eru að verða í efnahagskerfum heimsins. Ráðuneytið mun halda áfram að kanna frekar hvernig nýta megi tækifærin og hvernig tengsl við ný markaðssvæði verða styrkt. Samkvæmt skýrslunni verður áherslan áfram á gerð fríverslunarsamninga, bæði tvíhliða og á vettvangi EFTA, og verður leitað leiða til að fullnýta möguleika sem felast í þeim fríverslunarsamningum sem Ísland á þegar aðild að. Einnig mun utanríkisráðuneytið fylgjast áfram grannt með þróun mála í viðræðum Bandaríkjanna og ESB. Samkvæmt skýrslu ráðherra er liður í þessu verkefni að vinna að endurskoðun fríverslunarsamnings við Tyrkland, og endurskoðun fríverslunarsamnings EFTA við Kanada mun vonandi hefjast síðar á þessu ári. Þá standa og vonir til samkomulags við Mexíkó um breytingu á tvíhliða landbúnaðarsamningi, eins og fram kemur í skýrslunni, og enn verður unnið að eflingu viðskiptatengsla við Japan.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra heimsótti Japan fyrir skömmu og átti þar nokkra mjög góða fundi sem eiga ef til vill eftir að skila okkur nýjum viðskiptamöguleikum. Þess má geta að íslensk orkufyrirtæki hafa lengi verið í góðri samvinnu og samskiptum við Japani á sviði jarðvarmanýtingar, hafa til dæmis keypt margar vélar frá Japan og þróað þær með Japönunum.

Ef litið er til nærsvæðis Íslands standa vonir til að unnt verði að efla samstarf okkar við okkar góðu vini, Færeyinga og Grænlendinga, enn frekar á næstunni. Við opnuðum á síðasta ári nýtt sendiráð í Nuuk á Grænlandi og þar eru margir spennandi hlutir að gerast sem við munum vonandi vinna að með Grænlendingum í framtíðinni.

Herra forseti. Þessi yfirferð sýnir svo ekki er um að villast að verkefni utanríkisþjónustunnar hvað varðar alþjóðleg viðskipti eru fjölmörg og gríðarlega spennandi. Ísland býr yfir frelsi og sveigjanleika til að taka virkan þátt í alþjóðlegum viðskiptum og auka þannig hagvöxt og byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf. Þessi ríkisstjórn er alþjóðlega sinnuð og vill vera í góðum samskiptum við sem flestar þjóðir. Tækifærin liggja víða.

Áður en ég lýk máli mínu langar mig til að koma inn á tvennt sem hefur verið nefnt í umræðunni í dag, annars vegar ástandið í Sýrlandi sem nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á. Ég tek undir með þeim þingmönnum, það er hlutverk okkar að leggja okkar af mörkum á því svæði. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur sent út ákall vegna ástands barna þar. Ástandið er mjög slæmt, eins og við öll vitum sem fylgjumst með fréttaflutningi af þessu svæði.

Hið sama á við um Norður-Kóreu sem hv. þm. Elín Hirst kom inn á áðan. Út er komin skýrsla og í henni kemur fram að mjög alvarleg mannréttindabrot eru framin í Norður-Kóreu og heimurinn hefur hingað til staðið hálfpartinn ráðalaus gagnvart því sem er að gerast þar þannig að þetta er nokkuð sem hv. utanríkismálanefnd tekur vonandi til umfjöllunar á næstunni. Þetta eru alvarlegir hlutir sem við þurfum að ræða á Alþingi, taka afstöðu til og leggja okkar af mörkum sem þátttakendur í samfélagi þjóðanna.