143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:10]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Já, rétt er það, lýðræðið er lært og við á Íslandi erum alin upp við að vera partur af lýðræðissamfélagi vegna þess, eins og hv. þingmaður segir, að við lærum það í skólanum og lærum um það þegar fornmennirnir komu saman á Þingvöllum, og annað. Þetta er partur af okkur sjálfum einhvern veginn frá byrjun.

Nú naut ég þess að fá að fylgjast með kosningum fyrr í vetur í Aserbaídsjan, sem er að þróast í átt til lýðræðis, og þá sá maður svo ekki verður um villst að við erum á svo ofboðslega misjöfnum stað í heiminum, til dæmis hvað varðar aðgengi að rafrænum kosningum. Það er rétt sem þingmaðurinn sagði að það er ekki svo flókið hjá okkur á Vesturlöndum að auka þjóðaratkvæðagreiðslur vegna þess að við erum nánast öll með internet, við kunnum á tölvur og við erum líka með hina lýðræðislegu hugsun. Við erum mjög sterk á þeim rétti okkar að við megum og eigum að segja skoðanir okkar, leggja okkar af mörkum. En mjög víða í heiminum er fólk alið upp við kúgun kynslóðum saman og hefur ekki aðgang að tækni. Ólæsi er víða mikið og vanþekking og fólk hefur ekki þann grundvöll sem þarf til að ástunda lýðræði. Þess vegna er það rétt sem þingmaðurinn sagði að við þurfum svo sannarlega að leggja okkar af mörkum og kenna öðrum hvernig við höfum þróað þetta hjá okkar. En þó að við séum komin langt getum við að sjálfsögðu gert enn betur og þjóðaratkvæðagreiðslur eru partur af þeirri þróun, fjölgun þeirra hugsanlega.