143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka utanríkisráðherra þessa skýrslu. Það er stuttur tími sem ég hef til umráða og því ekki í færum til að fjalla um marga þætti sem ég mundi vilja tala um. Ég nefni norrænu víddina og norðurslóðasamstarfið, þróunarsamvinnuna, sem maður auðvitað óttast um í höndum núverandi ríkisstjórnar og ég bíð átekta eftir nýrri þróunarsamvinnuáætlun sem lofað hefur verið, öryggismál í breyttum heimi, ástandið í Sýrlandi, ástandið í Rússlandi og framgang Rússlands gagnvart nágrannaríkjum. Vel að merkja, ég tel það sjálfgefið að fulltrúar Íslands, hverjir svo sem þeir eru, nýti öll þau alþjóðlegu tækifæri þar sem þeir eru fulltrúar með rússneskum fulltrúum til að koma á framfæri óbeit sinni á framferði Rússa gagnvart grönnum sínum. Ég skil satt að segja ekki ef talsmenn Íslands og íslenska ríkisins gera það ekki, hvað þá átelja aðra fyrir að gera það.

Ég legg nú höfuðáherslu á breytingarnar, hvar breytingar er að finna í utanríkisstefnunni, og verð að afmarka mig við það. Kannski ættum við að taka aftur upp þá hefð sem var hér fyrir nokkrum árum og hafa þemaáherslur í skýrslum utanríkisráðherra því að sviðið er augljóslega svo vítt að erfitt er að gera því nokkur viðhlítandi skil í tíu mínútna ræðu.

Breytingin er í Evrópustefnunni. Ég ætla bara að segja það alveg eins og er, sú Evrópustefna sem birtist í skýrslunni er full af vanmetakennd, hún er full af afneitun á staðreyndum og hún er ekki sóknarstefna fyrir hagsmuni Íslands. Afneitunin er augljós. Ég nefni bara dæmi: Á bls. 66 er vísað til yfirstandandi alþjóðasamninga á sviði loftslagsmála. Þar er rætt um þá vinnu sem nú er í gangi við að gera nýjan Kyoto-samning en hvergi er minnst á að Ísland á aðild að loftslagsstefnu Evrópusambandsins og tekur á sig skuldbindingar með öllum hinum 28 aðildarríkjunum innan þess ramma. Hvers vegna? Hyggst ríkisstjórnin slíta þessu samstarfi eða fellur þetta ekki inn í heimsmyndina um að við séum ekki hluti af Evrópusambandinu á víðara sviði en EES-samningurinn einn hljóðar upp á?

Að því er varðar EES-samninginn horfir maður bara á orðin í þessari skýrslu og veltir fyrir sér veruleikatengingu núverandi stjórnvalda. Mér finnst mjög sérkennilegt fyrir land í gjaldeyrishöftum og með enga hugmynd um hvernig á að komast út úr þeim að segja í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis að staða Íslands á sviði alþjóðlegra viðskiptasamninga sé öfundsverð. Ég held að það sé mjög fjarri raunveruleikanum.

Hornsteinn stefnunnar á að vera samstarf um Evrópska efnahagssvæðið en það er engin slík sóknarstefna. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að auka markaðsaðgang? Menn tala oft um mikilvægi þess að auka markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur. Eru menn þá tilbúnir að afnema ofurtollastefnuna á Íslandi á móti, búa í haginn fyrir íslenska neytendur og fyrir íslenska útflytjendur landbúnaðarvöru, sameiginlega, eða eru menn bara í þeirri stöðu að þeir ætla endalaust að láta sækja á sig og gefa eftir hér og þar og sækja aldrei fram í þágu hagsmuna Íslands? Hvar er sýnin um skynsamlega forgangsröðun í þessu efni núna þegar við sjáum t.d. að það er verið að leggja næstum því 100% toll á innfluttar franskar kartöflur og innlend framleiðsla telst undir 10%? (Gripið fram í: Það er bara óhollustuskattur.) Það má leggja skattinn á sem óhollustuskatt en það á ekki að leggja hann á sem toll.

Virðulegi forseti. Við sjáum algjöra afneitum gagnvart því ástandi að við erum með höft. Við sjáum það í skýrslu Evrópusambandsins frá því í haust að Evrópusambandið vill ekki að örríkin verði aðilar að EES-samstarfinu. Vegna hvers? Vegna þess að þeir benda á það að það muni bara gera enn erfiðara að taka upp nýjar gerðir í samninginn. Þeir treysta ekki umgjörð EES-samningsins til að þola fleiri ríki.

Síðan segir ráðherrann og ráðuneytið og það er í hinni merkilegu nýju Evrópustefnu, sem ekkert er í sem hönd á festir, að það eigi að vinna bug á innleiðingarhallanum. Hæstv. utanríkisráðherra ætlar sem sagt að standa sig betur en allir forverar hans samanlagt í að innleiða evrópskar reglur án þess að fá neinar sérlausnir. Hann ætlar að vera stærsti innleiðingarsnillingurinn og ekki gera neinar kröfur um sérlausnir til þess að ná því markmiði að stytta innleiðingartímann.

Síðan horfir maður á lausnirnar sem færðar eru fram. Hvernig á að ná innleiðingarhallanum niður? Jú, með átaki með ráðuneytunum. Ég bara spyr: Hafa ráðuneytin, fagráðuneytin, verið vandamál varðandi innleiðingu EES-gerða hingað til? Ég held ekki. Enn og aftur afneitun. Hinn raunverulegi vandi sem við eigum við með innleiðingu EES-gerða er sá að það er svo mikill lýðræðishalli í EES að aðilar hér í samfélaginu, hvort sem það eru þjóðkjörnir fulltrúar á þingi, fulltrúar í sveitarstjórnum eða aðilar vinnumarkaðarins, fá enga aðkomu að þessum reglum. Vandamálið við innleiðingu, flöskuhálsinn, hefur fyrst og fremst verið hér í þinginu eða vegna þess að hagsmunaaðilar geta ekki sætt sig við reglurnar eins og þær líta út. Það er vandamálið. Lýðræðishallinn er vandamálið. Hvernig á að leysa hann? Vilja menn ganga í Evrópusambandið til að leysa hann? Nei, menn ætla bara að búa við hann áfram. Leiðin verður að hotta á embættismenn eins og stöð hross. Ég held ekki að þeir hafi verið vandamálið í innleiðingum hingað til.

Það eru líka stjórnskipulegar takmarkanir sem sneitt er hjá að ræða um efnislega hvað eigi að gera við. Menn rekja þær en það er engin sýn um hvert skuli halda. Leiðarljós ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum, eitt af þeim, Björn Bjarnason, sem lengi sat á þingi, hefur talað fyrir því að fundnar verði leiðir til þess að bora gat á stjórnarskrána svo að hægt verði að framselja vald til Evrópusambandsins þrátt fyrir að stjórnarskráin segi að íslensk stjórnvöld eigi að fara með valdið. Því er ég efnislega ósammála. Ég mun aldrei styðja það. Það er ekki rétt að flytja vald til Evrópusambandsins nema við verðum aðilar að því. Svo einfalt er það mál.

Þá spyr ég: Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar í þessu efni? Eru menn búnir að útiloka þá leið? Það væri gott að heyra það frá hæstv. ráðherra. Ég tel fullveldi þjóðarinnar það mikilvægt að það verði ekki framselt til alþjóðastofnana nema við eigum sæti þar við borðið. Við getum deilt fullveldi okkar með öðrum en við afhendum öðrum ekki yfirráð fyrir íslenskum málum.

Virðulegi forseti. Það blasir síðan við að ræður hæstv. ráðherra á undanförnum vikum, sem hafa einkennst af flestu öðru en sanngirni í garð Evrópusambandsins og verið uppfullar af hnýfilyrðum ýmiss konar í garð Evrópusambandsins og evrópskrar samvinnu, eru ekki til þess að treysta samningsstöðu Íslands í flóknum viðfangsefnum á næstu vikum, mánuðum og missirum. Það blasir við að stjórnvöld á Íslandi hafa ekki komið hreint fram, hvorki gagnvart íslenskri þjóð né gagnvart erlendum viðmælendum um áætlanir ríkisstjórnarinnar á sviði Evrópumála. Þjóðin er í uppnámi yfir því að menn eru að svíkja skýr kosningaloforð um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það blasir líka við, þegar horft er á hvað forustumenn Evrópusambandsins sögðu eftir fundinn með hæstv. ráðherra og hæstv. forsætisráðherra í sumar, að þeim hafði verið gefið til kynna að það eina sem eftir væri að gera í stefnumörkun Íslands og nýrrar ríkisstjórnar á sviði Evrópumála væri að ákveða dagsetningu þjóðaratkvæðagreiðslu — það væri það eina sem eftir væri. Það er alltaf búið að vera að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu. Allir viðmælendur á sviði Evrópusambandsins frá því í sumar hafa spurt: Hvenær kemur þjóðaratkvæðagreiðslan? Það er því ekki bara að íslenskum kjósendum hafi verið gefin loforð, sem síðan voru svikin, heldur hafa íslenskir ráðamenn látið það líka í veðri vaka gagnvart erlendum viðmælendum að málið yrði útkljáð með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Virðulegi forseti. Fram undan eru flóknir samningar við Evrópusambandið um ýmsa þætti. Það þarf að semja um framlög í Þróunarsjóð EFTA til næstu ára. Það þarf að semja um einhverja landbúnaðartollkvóta og heimild okkar til að flytja út landbúnaðarvörur vegna þess að það er orðið mikið hagsmunamál fyrir Ísland. Þá er ríkisstjórnin föst í gamaldags haftahugsun og virðist ekki geta hugsað sér að opna tollkvóta á móti til þess að skapa betri samningsstöðu og sækja fram með hagsmuni Íslands í huga. Við þurfum ekki að horfa lengra en í það góða fordæmi sem þáverandi hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, setti á sínum tíma þegar afnumin var tollvernd og henni breytt í stuðning við garðyrkjubændur með stórkostlega góðum árangri fyrir greinina, vöruþróun í greininni. Það er svolítið sérkennilegt að maður sé farinn að sakna framsýni Guðna Ágústssonar þegar kemur að samskiptum við aðrar þjóðir og umgjörð í landbúnaðarmálum fyrir íslenska þjóð.

Það er líka ljóst að við munum þurfa að sækja um útfærslur á innleiðingu tilskipana um eftirlit á fjármálamarkaði sem ekki er í hendi. Það er farið að spyrjast fyrir um stöðu haftanna á evrópskum vettvangi. Framganga ríkisstjórnarinnar hefur veikt stöðu okkar að öllu leyti gagnvart Evrópusambandinu á undanförnum vikum og það er verulega erfitt að sjá fyrir sér hvernig við látum EES virka við þessar flóknu aðstæður. Það er ekkert að finna um leiðsögn í því efni frá núverandi ríkisstjórn, heldur þvert á móti afneitun á augljósum staðreyndum um veikleika EES-samningsins.