143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég get tekið undir með þingmanninum að það kveður við nýjan tón í þjóðaröryggisstefnu varðandi þau öryggismál sem við þurfum að huga að. Það er einmitt mikill fókus á netöryggi, mikill fókus á umhverfismál og ýmislegt annað sem við höfum kannski ekki einbeitt okkur mikið að í öryggismálum í langan tíma, kannski aldrei jafn mikið og núna.

Ég get líka tekið undir með þingmanninum um að eflaust hefði mátt fjalla ítarlegar um umhverfismál og umhverfisógnir og öryggi í þessari skýrslu, en það má kannski segja það um margt annað líka. En ég tek undir að þessu hefði mátt gera aðeins ítarlegri skil í skýrslunni.

Ég vil þó ítreka að ekki eru uppi áform um annað en að við séum áfram í samfloti með Evrópusambandinu um þau markmið sem þar eru sett og það tengist náttúrlega öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar. Það eru ekki áform um neitt annað eins og staðan er núna enda held ég að ekki sé verið að spá í annað þannig að ég komi því á hreint, af því að það er rétt að lítið eða ekki neitt er minnst á þau mál í skýrslunni.

En varðandi EES-gerðirnar er rétt að við erum oft kaþólskari en páfinn við innleiðingu þeirra, gerum þær kannski oft of strangar. En þegar við tölum um að við þurfum að laga þann halla sem er á innleiðingum er ekki átt við að menn fari að vinna á óvandaðri hátt eða gefi sér minni tíma til að fara yfir þessar gerðir. Við þurfum hins vegar að vera fyrri til og vanda okkur betur við að taka út það sem þarf verulega athugunar við, það sem er íþyngjandi eða við getum ekki tekið upp eða eitthvað slíkt. Mig langar að nefna hér frægt atriði varðandi (Forseti hringir.) kraft í ryksugum. Ég held að það sé ekki stórmál fyrir Ísland að samþykkja að (Forseti hringir.) ryksugur þurfi að vera aðeins kraftminni en við höfum hins vegar eytt svolitlum tíma í að tala um það.