143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Það er vissulega rétt að alltaf verður erfiðara og erfiðara að standa við þær skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur í utanríkisþjónustunni eins og öðru þegar allir þurfa að taka á sig meiri og meiri niðurskurð.

Við leggjum af stað með þessa áætlun og væntingar okkar um að geta gert betur þegar kemur að Evrópusamstarfinu í EES-samningum og á öðrum stöðum í von um að verða í það minnsta ekki fyrir frekari niðurskurði en orðið hefur í dag, því á endanum lætur allt saman undan. Við vitum alveg hvernig það er.

Áformin um það hvernig við getum gert betur eru, ef ég einfalda myndina, í tvennu lagi. Við þurfum að bæta við mannskapinn, við þurfum að hafa fleira fólk sem vaktar það sem kemur í nefndum og er í undirbúningi hjá Evrópusambandinu, þau mál sem eru í ferli og fara í samninginn. Þar þurfum við kannski fyrst og fremst á að halda sérfræðingum frá fagráðuneytum í Brussel, þeir hafa tíma, tæki og tól til að fylgjast með því sem gerist. Ég held ég fari með rétt mál að það séu þrír, frekar en fjórir, sérfræðingar í dag frá ráðuneytum og ráðuneytin eru níu þannig að þið sjáið að bæta þarf við. En allir gera sitt besta. Starfsmenn utanríkisráðuneytisins sem eru erlendis taka líka á sig eitthvað af þessum verkefnum o.s.frv.

Síðan er hitt að við höfum tekið upp viðræður við Norðmenn um það hvernig við getum saman gert þarna betur og við höfum rætt það a.m.k. einu sinni, ef ekki tvisvar, við þá. Kollegi minn, sá sem fer með EES-mál og Evrópumál, er á leiðinni til Íslands í næstu eða þarnæstu viku þar sem við munum ræða m.a. þessi samskipti okkar og hvernig við getum komið sterkar saman að sameiginlegu verkefni.