143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta er eitt af því sem var rætt talsvert til að mynda í tengslum við frumvarp um Hagstofuna sem var hér til umræðu í haust ef ég man rétt. Þá var sérstaklega rætt um þessi dulkóðunarmál og samflokksmaður hv. þingmanns, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, leiddi okkur talsvert í sannleika um þetta.

En ef ég bregst aðeins við því sem hv. þingmaður sagði þá treystum við kannski um of á að allt sé þetta dulkóðað og falið. Kannski skiptir meira máli að vekja athygli fólks, bæði eldri sem yngri, á því að það að skrifa sms til dæmis er dálítið eins og að skrifa póstkort sem er lesið af ýmsum á leiðinni. Það get ég vottað hafandi verið bréfberi sjálf nokkur sumur, það gladdi mann ávallt að fá nokkur póstkort með til að kíkja á hvað fólk væri að gera. Þó að maður haldi að maður sé að senda mjög prívat textaskilaboð gæti maður allt eins verið að skrifa þetta á póstkort.

Þetta er eitt af því sem ég held að taka þurfi á í menntakerfinu. Þegar við ræðum upplýsingatækni dugir ekki að kenna fólki á ritvinnsluforrit og slíkt, heldur einmitt hvernig maður fer með upplýsingar og hvernig á að rýna allar þær upplýsingar sem flæða yfir fólk á netinu. Það er hinn gallinn á þessu upplýsingaflæði, sem að mörgu leyti er stórkostlegt, að nemendur og ungmenni og fólk og almenningur hefur mjög mikinn aðgang að upplýsingum, en kannski ekki alltaf tækin til að greina á milli góðra upplýsinga og annars sem er sett fram sem upplýsingar en er það ekki í raun.