143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum kannski aðeins komin út fyrir. Upplýsingalæsi er samt mikilvægt. Í nýjum námskrám er einmitt talað um læsi í víðum skilningi. Þar ætti auðvitað að rúmast upplýsingalæsi því að við sjáum að þróunin hefur orðið sú á samskiptamiðlum til að mynda að þar setur fólk inn upplýsingar sem það er í raun og veru að hugsa sér fyrir eldhúsborðið en gæti allt eins hengt upp á héraðsdómshúsið á Lækjartorgi. Þetta er eitt af því sem mörg af ungmennum okkar munu upplifa mikla erfiðleika í kringum, þegar óþægilegar upplýsingar eru skyndilega komnar út á veraldarvefinn. Þá er engin leið að snúa aftur, engin leið að eyða þeim. Þetta er eitt af því sem við þurfum að tryggja í námskrá, en það þarf líka að mennta okkur, eldri borgarana í tækniheiminum, til að við getum miðlað þessu til barnanna, því að við erum öll að ganga í gegnum gríðarlega tæknibyltingu. Þar er unga fólkið yfirleitt langt á undan okkur hinum. Þess vegna er svo mikilvægt einmitt að námskráin fylgist með og að kennararnir fylgist með. Þar er mikill vilji og áhugi og þarf jafnvel bara að styrkja enn frekar með öflugum stuðningi frá sveitarfélögum og menntamálaráðuneyti.