143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Nú var utanríkisráðherra með forseta Íslands í þeirri för sem þingmaðurinn nefndi til Þýskalands síðastliðið sumar. Þar var Íslendingum öllum sem voru í fylgdarliði forseta tekið með kostum og kynjum, áhersla var á góð samskipti, og við utanríkisráðherrarnir tveir á þeim tíma ræddum að sjálfsögðu utanríkismál. Sáum ýmsar listsýningar og ýmislegt annað. Áhugaverð ferð sem ég held að hafi einmitt treyst bönd Þýskalands og Íslands ef eitthvað er.

Ég á erfitt með að svara nákvæmlega fyrir forseta Íslands. Það er mjög mikilvægt að hann svari sjálfur fyrir sig. Hins vegar er allt í lagi að benda á að í þessari heimsókn var t.d. horft til Bremenports, sem er fyrirtæki sem rekur höfnina í Bremen og er að kanna með hafnarframkvæmdir á Austurlandi, það var rætt við forseta Íslands í þessari ferð og einnig aðra sem voru í ferðinni. Ég get ekki sagt hvaða samningar eru á borðinu eftir akkúrat þessa ferð. Við eigum hins vegar góð samskipti við Þýskaland. Við erum að ræða við þá um mögulegt samstarf, við veltum upp málum eins og t.d. jarðhita, það er hægt að finna jarðhita í Þýskalandi sem væri hægt að nýta, o.s.frv. Þetta eru íslensk stjórnvöld að gera, ekki forsetaembættið. Forsetinn þarf því kannski að svara þessu sjálfur. Hins vegar er ekki hægt að draga dul á að forseti Íslands hefur mjög mikil áhrif þar sem hann mætir. Ég hef valið þann kost að reyna að nýta það ef mögulegt er fyrir hönd okkar þjóðar.

Varðandi Rússland getum við ekki horft fram hjá því að við áttum (Forseti hringir.) á síðasta ári 70 ára stjórnmálasambandsafmæli við Rússland. Það hefur gengið á ýmsu í því á þeim árum.