143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður skiljum við þessa fyrri spurningu þannig að hvorugur okkar skilur hinn eða hvað málið er nákvæmlega. En varðandi þá ráðamenn sem forsetinn hittir og þá um leið utanríkisráðherra og embættismenn aðrir sem eru með í för var alveg skýrt í þessari ferð, þeirri fyrstu og einu sem ég hef farið í fram að þessu, í hvaða hlutverki hver var. Til dæmis átti ég fund með utanríkisráðherra Þýskalands sem var okkar prívatfundur og forseti Íslands sat ekki. Ég sat hins vegar fund með Angelu Merkel, fund sem var settur upp fyrir forseta Íslands. Þar sat ég og ræddi utanríkismál fyrir hönd Íslands. Það gerði forsetinn hins vegar ekki.

Á sama hátt áttum við fund með forseta Sambandsþingsins þar sem við ræddum þessi mál. Það var alveg ljóst í hvaða hlutverki við vorum þar. Síðan áttum við einnig fundi með forseta Þýskalands þar sem forseti Íslands bauð kollega sínum, þeim ágæta manni, í heimsókn til Íslands sem ég vona sannarlega að verði af. Það var að sjálfsögðu allt annar bragur á þeirri heimsókn þar sem tveir forsetar voru að funda saman, borða saman, og við hin vorum í aukahlutverki. Í þessari ferð var því alveg ljóst að mínu viti hver var í hvaða hlutverki, hver hafði orðið, miðað við upplegg fundanna og ekkert út á það að setja.

Ég er hins vegar sammála þingmanninum um að Þjóðverjar eru einhver okkar besta og mesta vinaþjóð. Þeir hafa yfirleitt tekið Íslendingum vel. Við höfum átt góð samskipti við þá í gegnum árin á hvaða sviði sem er og ætlum að sjálfsögðu að halda því áfram. Ég er að bíða eftir tækifæri til þess að heimsækja minn nýja kollega í Þýskalandi og vona að sjálfsögðu að hann eigi tök á því að koma til Íslands fljótlega.