143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:41]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka skýrslu hæstv. utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar um utanríkis- og alþjóðamál og eftirfylgni hans hér í ræðustól.

Mig langar að fjalla um tækifæri Íslands í þeim alheimsvanda sem hnattræn hlýnun hefur í för með sér. Til að átta sig á tækifærunum þurfum við að athuga hvað hlýnun jarðar þýðir. Þar má nefna að fólksfjöldi á eftir að aukast nær pólum jarðar með fólksflutningum frá heitustu löndum í þau sem eru norðar eða sunnar á hnettinum, í kaldara umhverfi. Þá mun fólksfjöldi aukast til muna á norðurhveli jarðar því að um 67% af massa lands eru á norðurhvelinu. Það þýðir að massi meðalfólks færist norður.

Annað sem fylgir hlýnun jarðar og gerist hraðar en spáð hefur verið er bráðnun íss á norðurpólnum. Norður-Íshafið er nú þegar opið einhvern hluta á sumrin og hefur sá tími verið að lengjast. Einnig sigla þar reglulega í gegn skip og skipalestir á eftir ísbrjótum. Talið er að á næstu 20 árum geti íshellan horfið með öllu, og jafnvel fyrr því að bráðnunin virðist fylgja veldisfalli. Þá verðum við Íslendingar og íslensk stjórnvöld að vera tilbúin og viðbúin þeim tækifærum sem fylgja. Ég fullyrði að ef rétt er haldið á spilunum gæti Ísland annað umferðarmestu sjóflutningum í heiminum. Þegar, ekki ef, íshellan hverfur munu siglingaleiðir milli Asíu og Evrópu annars vegar og austurstrandar Ameríku og Asíu hins vegar styttast til muna og verða miklu öruggari og betri siglingaleiðir en þær sem eru í dag. Skip þurfa ekki að þræða strendur Rússlands og Noregs eða Bandaríkjanna og Kanada til að komast í Atlantshafið gegnum Íshafið.

Til að setja þessar vegalengdir í samhengi get ég nefnt að það er um það bil jafn langur hringur að fara frá suðausturhluta Rússlands, Kóreu, norðausturhluta Kína og Japans til Evrópu og um Súez-skurð, sem sagt að fara Norður-Íshafið eða um Súez. Mikil umferð er hins vegar í gegnum skipaskurðinn. Oft þurfa skip að bíða nokkra sólarhringa áður en þau geta siglt í gegn fyrir utan gjald sem þarf að greiða fyrir það. Sjórán eru tíð á þessu svæði meðan skip bíða eftir siglingaleyfi.

Ég held að það séu ný tækifæri fyrir Ísland til inn- og útflutnings við stærstu viðskiptaveldi Asíu. Hvernig nýtum við þessi tækifæri? Ég sé nokkra möguleika fyrir Ísland. Eitt það helsta er stórskipahöfn á Austurlandi. Norðausturland er tilvalinn staður fyrir stórskipahöfn. Fyrir það fyrsta liggja hafstraumarnir umhverfis Íslandi réttsælis þannig að það gerir Austurland aðlaðandi fyrir stórskipahöfn. Fyrir norðan er mikill hafís sem rekur frá Grænlandi og austur og þar af leiðandi tel ég betra að hafa höfn fyrir austan Langanes þar sem hafís er sjaldgæfari.

Skip sem munu sigla í gegnum Íshafið þegar ís er bráðinn verða að öllum líkindum sérstök, sérstyrkt og stærri en venjuleg fraktskip. Ég sé því fyrir mér að þau muni einungis sigla yfir Norður-Íshafið, t.d. frá Norm í Kanada til Finnafjarðar á Íslandi. Héðan yrði vörum dreift til Norðurlanda, Austur-Ameríku eða Evrópu. Stórskipahöfn á Austurlandi gæti einnig verið þjónustuhöfn fyrir olíuleit á Drekasvæðinu.

Ég geri mér fulla grein fyrir að mannvirki eins og stórskipahöfn er allt að tíu sinnum stærra í framkvæmd en Kárahnjúkavirkjun þannig að Ísland á litla möguleika á að ráðast í slíkar framkvæmdir án aðkomu fjársterkra aðila og þeirra sem hafa reynslu og tengslanet í að reka stórskipahafnir.

Þá vil ég nefna tækifæri fyrir minni umskipunarhafnir til að flytja inn og úr landi vörur, t.d. í Þorlákshöfn, eins og getið er um í þingsályktunartillögu frá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Það hafnarsvæði liggur einstaklega vel fyrir vöruflutninga milli Ameríku og Evrópu.

Ég hvet ráðherra til að berjast fyrir rétti okkar er snýr að öllum þessum hagsmunum, ekki bara breyttum fiskimiðum og olíuleit. Ég tel að það gæti verið stærsta hagsmunamál Íslands til framtíðar að fá hingað stórskipaumferð, það auðveldar innflutning á þeim vörum sem við framleiðum ekki og opnar ný tækifæri í útflutningi.

Viðskiptatækifæri sem fylgja geta verið gríðarleg. Sem dæmi um að þjóðir setji sig í stellingar við að nýta framtíðartækifæri í viðskiptum má nefna að í norðvesturhluta Rússlands, nálægt Finnlandi, er búið að byggja stórskipahöfn í Múrmansk sem stendur auð og er tilbúin að nýta tækifæri Norður-Íshafsins.

Ég hvet einnig ráðherra og hans fólk í ráðuneytinu til að halda þeirri forustu sem Ísland tók í samstarfi norrænu utanríkisráðuneytanna en einnig að taka forustu í Norðurskautsráðinu.

Að lokum hvet ég ráðherranefndina til að undirbúa reglur og lög á Íslandi þannig að við getum nýtt þessi tækifæri. Með þessum breyttu aðstæðum á norðurslóðum verður þó í allri umræðu um uppbyggingu að minnast á umhverfismál enda skipta þau okkur miklu máli. Gæta verður að viðkvæmu lífríki norðurslóðanna sem best verður gert með því að fylgja ýtrustu kröfum við allar framkvæmdir og vinnslu auðlinda, hvort sem þær eru fiskur eða olía. Fiskimið eru að færast með hlýnun hafsins eins og við sjáum með makríl og breytingum á veiðimiðum loðnu og ýsu sem er nú farin að veiðast fyrir norðan land. Það þekktist ekki áður.

Að lokum langar mig að vekja athygli á áhyggjuefni sem er tiltölulega nýkomið upp í umræðunni um bráðnun íss í Norður-Íshafinu. Mikið af metani losnar út í andrúmsloftið af hafsbotni og úr hafinu, en metan er um 20 sinnum öflugri, þ.e. verri, gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíð. Á alþjóðavettvangi í umhverfismálum tel ég að Ísland gæti verið leiðandi í því starfi að draga úr gróðurhúsalofttegundum og sporna við hlýnun jarðar. Við höfum öll tækifæri til að vera góð fyrirmynd annarra þjóða og jafnvel gæti eftirlitsstofnun með kolefnislosun verið stjórnað og stýrt héðan. Sem dæmi getum við nefnt umhverfisvæna orkugjafa, að raforkuvæða bílaflotann, kolefnislosun fyrirtækja og jöfnun kolefnis.