143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast nú heldur betur við ummæli José Manuel Barrosos, en hann ræður bara engu um það. Það vill svo til að þjóðþingin og aðildarlöndin ráða öllu um það. Aðeins til að hughreysta hv. þingmann er rakið mjög ítarlega í þeim texta sem Stefán Már Stefánsson prófessor skrifaði fyrir hæstv. utanríkisráðherra hvernig nýgenginn dómur stjórnlagadómstóls Þýskalands segir það bókstaflega svart á hvítu: Það er ekki hægt. Ég held að það sé algjörlega skýrt.

Annað sem vakti athygli mína í máli hv. þingmanns er að hann sagði réttilega að sambýlið er orðið ansi þröngt milli stjórnarskrárinnar og EES-samningsins. Það er hárrétt hjá honum. Það blasir við að fram undan er upptaka tilskipana sem eru þannig að ekki er nokkur möguleiki á að þær geti samrýmst stjórnarskrá Íslands. Þá sagði hv. þingmaður: Það er tvennt til, annars vegar að leita samninga við Evrópusambandið um þau mál, en hann sagði jafnframt að hann teldi ólíklegt að þeir næðust vegna þess að öxullinn sem bæði EES og Evrópusambandið hverfast um er einsleitnin. Hann gaf sér niðurstöðuna, sem ég held að sé rétt hjá honum. Ég held að það muni ganga mjög illa, sérstaklega á þessum sviðum. Svo sagði þingmaðurinn: Ef það gengur ekki verður bara að gera eitthvað annað.

En hvað er þetta eitthvað annað? Við verðum að velta því fyrir okkur. Ef það er svo að menn ætla ekki að láta reyna á Evrópusambandsaðild þá ætlum við að reyna að lifa með EES-samningnum, og þá þurfum við að taka upp þessar nýju djúptæku gerðir. Ef það er ekki hægt, eins og ég og hv. þingmaður erum greinilega sammála um, hvað þá? Þá stöndum við frammi fyrir því að samningurinn er í uppnámi. Hvað gera bændur þá?