143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Takk fyrir góða og fróðlega umræðu. Aðeins varðandi síðustu ræður þá er svo sem alveg hægt að fara í texta stjórnarsáttmálans og greina rökfræðilega hvað hann þýðir í rauninni, en til þess þyrfti ég að fá tússtöflu og ýmislegt og beinar tilvitnanir, en ég ætla ekki að fara í það núna. Ég segi bara að ýmsir geta gert það.

Þegar ég velti fyrir mér kaflanum um ESB í skýrslunni koma upp ákveðnar spurningar. Sem pæling: Hvað ef það kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu, hver svo sem spurningin yrði? Þá vil ég slá ákveðna varnagla við því hvað þyrfti að gerast fyrst. Það þarf að liggja fyrir túlkun á því hvað niðurstöður þýða áður en atkvæðagreiðsla hefst. Ef niðurstaðan er t.d. 50%:50%, hvað þýðir það? Ef 60% eru hlynntir, hvað þarf þá að gera? Hver er aðgerðaáætlunin sem fylgir því? Þetta er mikilvægt upp á það að skilja spurninguna.

Í stjórnlagaþingskosningunum var til dæmis spurt um þjóðkirkjuna, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

Meiri hlutinn sagði já. Ef ég set síðan ákvæði sem er eitthvað á þessa leið: Á Íslandi á ekki að vera nein þjóðkirkja — þá er ákvæði í stjórnarskránni um þjóðkirkju og uppfyllir þar af leiðandi þessa lýðræðislegu niðurstöðu, en það var væntanlega ekki tilgangur spurningarinnar. Ég get spurt spurningar en ef ég veit ekki tilganginn með henni, veit ekki hvernig á að túlka niðurstöðuna þá get ég ekki svarað henni á réttan hátt.

Þetta skiptir máli varðandi þá spurningu sem mundi verða spurð í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem yrði haldin. Ef niðurstaðan yrði sú að það ætti að halda viðræðum áfram, hvað þá? Þá þarf að liggja fyrir ákveðin aðgerðaáætlun. Það má spyrja: Hverju treystum við, þjóðin, til þess að sinna samningum sem best? Treystum við þeim sem eru á móti inngöngu? Væntanlega væri hagur þeirra að ná slæmum samningi því að það er ólíklegra að sá samningur yrði samþykktur. Hver fengi góðan samning? Væntanlega þeir sem vilja að samningurinn verði samþykktur. Það er líklegra að þeir ættu að sjá um samningsgerðina, alla vega votta að hún hafi verið eftir kúnstarinnar reglum. Hver hefur síðan hag af góðum samningi? Það er að sjálfsögðu þjóðin. Eina rökrétta leiðin til þess að bjóða þjóðinni samning er að hafa hann eins góðan og við getum.

Þetta snýst allt um að það liggi fyrir túlkun á því hvað spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni þýðir, hver aðgerðaáætlun er miðað við hverja niðurstöðu fyrir sig og gætt sé hlutdrægni þeirra sem eiga í samningsviðræðunum. Mér finnst þetta dálítið mikilvægt, sérstaklega með tilliti til fyrri þjóðaratkvæðagreiðslna og villandi spurninga sem var hægt að túlka á mismunandi vegu eftir hentisemi.