143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst umræðan sem hefur verið hér í dag, að vísu ekki yfir troðfullum sal en a.m.k. mjög áhugasömum sal af þeim sem hlýða á, hafa verið mjög áhugaverð. Mér hefur fundist sem menn hafi þokað sig fram til þess að skilgreina betur þann vanda sem við stöndum hugsanlega frammi fyrir og enginn náði kannski að lykja lófa sínum eins vel um hann og einn af þeim hv. þingmönnum sem töluðu hér rétt áðan, hv. þm. Karl Garðarsson. Hann benti réttilega á að Íslendingar stæðu frammi fyrir því vandamáli að stjórnarskráin og EES-samningurinn, sem hæstv. ríkisstjórn vill byggja á, a.m.k. til nánustu framtíðar, eru ekki að öllu leyti samrýmanleg. Svipaðra viðhorfa fannst mér gæta hjá formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgi Ármannssyni, sem gerir sér augljóslega mætavel grein fyrir því og telur að þar þurfi í það minnsta skóhorn til að láta hvort tveggja ná rækilega saman.

Hv. þm. Karl Garðarsson taldi að vegna þess að Evrópusambandið líkt og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hverfist um sama öxul, þ.e. öxul einsleitninnar, yrði mjög erfitt fyrir okkur að ná niðurstöðu í samningum við Evrópusambandið um einhvers konar breytingar eða aðlaganir á þeim tilskipunum sem fyrir liggur að við þurfum að taka upp á allra næstu missirum. Ég á hér við þær merkilegu tilskipanir og djúprættu sem varða nýjar eftirlitsstofnanir og eftirlitsvald á sviði fjármála og banka.

Í þingskjali, sem verður rætt hér síðar í dag, var haft eftir hæstv. utanríkisráðherra, af fundi þar sem hann var í útlöndum, að hann hefði fyrir því góðan skilning eða góð orð hjá lagasviði framkvæmdastjórnarinnar í Brussel að tiltekin málamiðlun sem menn hafa verið að ræða og ætti að byggjast á hinu hefðbundna tveggja stoða kerfi félli þar í jákvæðan jarðveg. — Herra forseti. Af því hv. þingmaður, fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar, horfir á mig spurnaraugum er þetta haft eftir hæstv. ráðherra í skýrslu þingmannanefndar EES/EFTA-landanna. — Spurningin í augum hans er vel skiljanleg. Ég ímynda mér að hæstv. ráðherra hafi komið að máli við kollega sína og starfsbræður í Brussel og fengið jákvæð svör. Þeir eru alltaf dálítið jákvæðir þar; það veit enginn betur en ég.

Það breytir ekki hinu, að við erum sem sagt komin í þá stöðu að það liggur fyrir að við þurfum að taka upp tilskipanir sem skipta mjög miklu máli og ekkert bendir til þess að við sleppum við en við getum ekki tekið þær upp að óbreyttu. Við höfum hér þingmenn, hver sín megin stjórnarlínunnar, sem hafa verið sammála um það, a.m.k. tveir í þessari umræðu, að ekki muni nást sátt í því máli.

Hvað þýðir það? Það þýðir að samningurinn er í uppnámi. Það er nokkuð sem við verðum að horfast í augu við vegna þess að hann er eitt af því sem hefur skapað velsæld á Íslandi. Hann er gríðarlega mikilvægur fyrir atvinnulíf okkar, eins og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason rakti hér áðan, 90% af útflutningi okkar er til Evrópu og 65% til ESB-landanna.

Hvað gera bændur þá? Þeirrar spurningar var spurt fyrr í dag. Ég hef svar við því sem hv. þingmenn stjórnarliðsins eru að meira eða minna leyti ósammála. Ég tel að besta leiðin fyrir okkur sé að ganga í Evrópusambandið og hafa áhrif innan vébanda þess. Hv. þingmenn sem eru annarrar skoðunar telja að við munum hafa lítil völd. Ég óttast það ekki. Svona af því ég hef verið að vísa í mína nýju biblíu, viðauka Stefáns Más Stefánssonar prófessors, þá kemur þar líka fram og var reyndar staðfest í umræðu við hann í nefndinni, að hann telji ekki að lítil ríki séu áhrifalítil eða komi málum sínum illa fyrir borð. Hann telur að þeim hafi tekist vel að verja hagsmuni sína.

Það má segja að við séum komin að kjarna málsins: Við munum ekki að óbreyttri stjórnarskrá geta tekið upp gerðir sem við þurfum að taka upp. Það þýðir að EES-samningurinn er í uppnámi.

Svarið við spurningunni: Hvað gera bændur þá? — Ég hef ekkert svar annað en ganga í Evrópusambandið.

Eins og hv. þm. Karl Garðarsson sagði réttilega (Forseti hringir.) í dag, hvað gerum við þá? Við því hafa hv. þingmenn stjórnarliðsins engin svör.