143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst vil ég rifja það upp að þegar við samþykktum að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu var þetta allt saman á gráu svæði. Þegar hinar fjóru lagabrekkur voru fengnar til þess að fara höndum um hvort samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið stæðist stjórnarskrána komust þær að þeirri niðurstöðu að svo væri líklega en það væri á gráu svæði.

Síðan hafa orðið töluverðar breytingar. Við höfum tekið upp tilskipanir og gerðir sem eru þannig að ef maður lítur á þær má segja að á afmörkuðu sviði framselji þær vald út úr landinu. Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé heimilt af því það sé svo vel skilgreint og það sé á svo afmörkuðu svæði, en það brýtur samt gegn anda stjórnarskrárinnar. Þegar þessi dæmi eru orðin allmörg, og við fjöllum um nokkur þeirra þessar vikur og mánuði, þá er ég þeirrar skoðunar að allnokkur tími sé liðinn frá því að við fórum út af þessu gráa svæði og árekstur varð á milli stjórnarskrár og aðildar okkar að EES.

Að því er varðar síðan spurninguna sem hv. þingmaður varpar til mín þá er ég þeirrar skoðunar að við eigum að taka stærra skrefið. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að gera breytingar á stjórnarskrá sem feli í sér nægilega sterkar og víðar heimildir til þess að við getum orðið aðilar að Evrópusambandinu. Ástæðan er sú að það liggja fyrir yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstjórn og forustumönnum hennar, nánast öllum nema formanni utanríkismálanefndar, um að það eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að það skuli vera á fyrri hluta kjörtímabilsins. Ég tel að niðurstaðan úr þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu verði jákvæð og það verði haldið (Forseti hringir.) áfram með viðræðurnar. Ég held að að lokum komi samningur (Forseti hringir.) sem þjóðin samþykki. Þá þurfum við að hafa (Forseti hringir.) þetta fyrir hendi.