143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:43]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða skýrslu hæstv. utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar um utanríkis- og alþjóðamál samkvæmt hefð. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að leggja þessa skýrslu fyrir og ræða hana í breiðara samhengi. Margir hv. þingmenn hafa kveðið sér hljóðs um skýrsluna, rætt hana og komið víða við.

Megintilgangurinn með henni er að gefa mynd af stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu, fara yfir stefnumið hæstv. ríkisstjórnar og þá þjónustu sem utanríkisþjónustan veitir okkur. Ég verð að segja að skýrslan gefur í það minnsta mér góða mynd af þeirri víðtæku þjónustu sem veitt er og þeim margþættu hagsmunum sem eru undir.

Umræðan hefur bara verið býsna góð. Þegar maður kemur svona með seinni skipunum verður maður að líta til þeirrar umræðu sem verið hefur. Ég ítreka að mér finnst umræðan góð. Menn hafa komið víða við. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom inn á borgaraþjónustuna. Starfsemi hennar miðar að því að greiða götu okkar borgaranna sem þurfum aðstoðar við á erlendri grundu. Segja má að þessi þjónusta sé alltaf að aukast, eðlilega í okkar breytta samfélagslega mynstri, með auknum flutningum Íslendinga til útlanda til lengri eða skemmri tíma í nám og vinnu, aukinni ásókn útlendra ferðamanna til Íslands og vegna vinsælda Íslands sem ferðamannalands og áfangastaðar. Þetta allt eykur kröfur til þjónustunnar og umfangs hennar. Hún er ansi víðtæk. Þegar við ræðum í þessu samhengi sparnað í opinberum rekstri viljum við oft og tíðum snúa okkur að utanríkisþjónustunni og skera þar niður. Það er í hróplegu ósamræmi við hið aukna umfang á þessu sviði og það hvernig við ræðum á sparistundum að heimurinn sé að verða að einu svæði.

Það er fjölþætt þjónusta sem er farið yfir í skýrslunni. Það þarf að greiða götu okkar borgaranna sem þurfum aðstoðar við á erlendri grundu, eins og segir í skýrslunni, og ýmislegt sem kemur upp eins og neyð vegna veikinda eða slysa. Þá hefur útgáfa vegabréfa stóraukist. Það þarf oft að bregðast við og veita aðstoð vegna sakamála og afplánunar refsidóma, aðstoð við að hafa uppi á týndum einstaklingum og flytja heim látna, veika eða vegalausa borgara, eins og segir í skýrslunni.

Eins og ég kom inn á hefur þessi þjónusta aukist töluvert mikið undanfarin ár og í takt við fjölgun Íslendinga sem flytja til útlanda. Þá má segja að á þessum síðustu og viðsjárverðustu tímum komi til kasta borgaraþjónustunnar sem skipuleggur aðgerðir til að koma til hjálpar á hættu- og hamfarasvæðum á þessari upplýsinga- og tæknivæddu öld. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom vel inn á það svið mála og sagði margt áhugavert.

Virðulegi forseti. Ég trúi því að í gegnum tíðina hafi flestir Íslendingar með einhverjum hætti notið hjálpar eða leiðsagnar og aðstoðar sendiskrifstofanna okkar, til að mynda í London og á Norðurlöndunum. Ég minnist þess sem námsmaður á yngri árum í Kaupmannahöfn og á ferðalögum og í starfi sem leiðsögumaður með hópa í London að liðlegheit utanríkisþjónustunnar og hjálpsemi sendiráðanna bjargaði oft niður í smæstu verkefni sem gætu komið upp, t.d. við lítið atriði eins og þegar passi týnist.

Borgaraþjónustunni eru gerð góð skil í skýrslunni og hefur starfsemin byggst verulega á neti kjörræðismanna Íslands, eins og það er orðað í skýrslunni og kemur vel fram þar. Þeir eru taldir í skýrslunni 250 í yfir 80 löndum víðs vegar um álfuna. Flestir leggja á sig ómetanlega þjónustu við íslenska borgara erlendis og án þess að þiggja laun fyrir. Enn og aftur ætla ég að koma að því, þegar við hröpum að ályktunum um að skera megi niður í utanríkisþjónustu, að þetta kostar fyrirhöfn, utanumhald og skipulag.

Við eigum að skoða hlutina eilítið betur áður en við beinum spjótum okkar beint að utanríkisþjónustunni þegar kemur að sparnaðartali í opinberum rekstri. Það er hollt fyrir okkur að sjá í skýrslunni hversu víðfeðm borgaraþjónustan er og staðreyndir um þá þjónustu sem Íslendingum í útlöndum býðst. Eins og ég kom inn á fer þeim fjölgandi. Ferðamynstur okkar er jafnframt að breytast. Áður og fyrr ferðuðumst við í skipulögðum hópferðum, í dag förum við meira á eigin vegum og það eykur enn kröfur um fjölbreytni þjónustunnar. Það er oft langt í næstu sendiskrifstofu og þá reynir á hið öfluga net ræðismanna sem eru tilbúnir að koma Íslendingum til aðstoðar.

Það hefur ekki farið fram hjá okkur, eins og ég kom inn á áðan, að Ísland er sífellt vinsælli áfangastaður ferðamanna og ferðamönnum fjölgar frá fjarlægum slóðum eins og Kína. Útgáfa vegabréfsáritana er í sendiráðum og gerir mönnum kleift að veita þeim sem hyggja á Íslandsferð betri þjónustu. Þá er einnig minnst á það í skýrslunni að það er aukin krafa um að viðskiptaskjöl ýmiss konar séu staðfest af utanríkisráðuneytinu. Hið sama gildir um ýmiss konar samskipti milli stjórnvalda.

Þá hafa breyttar áherslur í námi eins og aukið framboð fjarnáms fjölgað þeim sem óska eftir að þreyta próf frá íslenskum menntastofnunum í sendiráðum Íslands. Þetta fannst mér hvað athyglisverðast í skýrslunni eða kannski mesta ástæðan til að benda á af því að hér hefur verið fjallað nokkuð ítarlega um málefni norðurslóða. Í skýrslunni eru málefnum norðurslóða gerð góð skil og vissulega eru mikil tækifæri fólgin í norðurslóðamálum. Ég árétta mikilvægi þess sem kemur skýrt fram í stefnu stjórnvalda að þær ákvarðanir sem teknar eru um málefni norðurslóða séu teknar á vettvangi Norðurskautsráðsins, að við tryggjum að til grundvallar sé hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna og að við aukin efnahagsleg umsvif verði stuðlað að sjálfbærri nýtingu auðlinda og gætt að ábyrgri umgengni um hin viðkvæmu vistkerfi norðurslóða og verndun lífríkis. Þá finnst mér mjög athyglisverðir hlutir í gangi á sviði eftirlits, leitar, björgunar og mengunarvarna á svæðum.

Þar sem ég á sæti í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og EES bíð ég spenntur eftir skýrslu sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, sem er með mér í þeirri nefnd, leggur væntanlega fram síðar í kvöld. Mér finnst mjög athyglisverð umræðan sem átti sér stað áðan milli hv. þingmanna sem eru hoknir af reynslu, hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar og Össurar Skarphéðinssonar, og hv. þm. (Forseti hringir.) Birgir Ármannsson blandaði sér í hana, (Forseti hringir.) formaður utanríkismálanefndar.

Er tíminn búinn? (Forseti hringir.) Mér finnst þetta svo skemmtilegt.