143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[18:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir lokaorð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ég held að það sé alveg rétt að eins og fjármálaeftirlitsmálið er vaxið og verði ekki á því verulegar breytingar, yrði sennilega um að ræða víðtækasta og trúlega áhrifamesta framsal sem átt hefur sér stað ef við ætluðum að kyngja þessu óbreyttu. Ég er alveg sammála honum um það mat að það er miklu stærra mál en þau önnur sem við höfum fjallað um hér.

Ég vil hins vegar leiðrétta það ef hv. þingmaður hefur misskilið orð mín svo að ég teldi að það væri í lagi að brjóta stjórnarskrána smávegis, vegna þess að þau tilvik sem ég var að tala um í fortíðinni eru flest þess eðlis að ég tel að ekki hafi verið gengið lengra en heimilt var. Í einu tilviki taldi ég að gengið væri lengra en heimilt var, það var í lok síðasta kjörtímabils vegna loftslagsmála. Enginn mun geta skorið úr um hvort raunverulega var gengið lengra en heimilt var nema dómstólar ef einhver mál koma til þeirra sem það varða. En þar taldi ég að gengið hafi verið lengra en heimilt var. En í hinum tilvikunum, þó að ég viðurkenni að það séu grensutilvik, tel ég ekki að sé um brot að ræða.

Varðandi hins vegar almennar spurningar í þessu sambandi um hugsanlegar stjórnarskrárbreytingar, þykist ég vita að hv. þingmaður hafi tekið eftir því að ég hef alloft í umræðum, bæði um stjórnarskrármál og EES-mál, orðað það að frá mínum bæjardyrum séð kæmi til greina að gera stjórnarskrárbreytingu sem heimilaði takmarkað framsal á afmörkuðu sviði. Ég hef sagt það bæði í ræðu og riti að ég teldi að hægt væri (Forseti hringir.) að finna slíka lausn sem væri auðvitað þröng. (Forseti hringir.) Ég mundi ekki fallast á breytingu (Forseti hringir.) af því tagi sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður rakti hér (Forseti hringir.) í ræðu sinni áðan sem mundi fela (Forseti hringir.) í sér einhverjar miklu víðtækari heimildir.