143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[18:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég misskildi hv. þingmann ekki, en vildi nota þetta tækifæri til þess að gefa honum kost á því að skýra (Gripið fram í.) betur mál sitt. Ég tel að það liggi þá algjörlega ljóst fyrir hver afstaða hans er. Hann hefur talað sig í áttina að þessu, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, en kannski aldrei svo að skilningarfæri mín hafi numið það svo að hann hafi áður talað jafn skýrt og núna. Hann telur að breyta þurfi stjórnarskránni. Hann vill gera það með þeim hætti að hún heimili framsal valds á þröngum, vel skilgreindum og afmörkuðum sviðum. Það er svartalágmark tel ég. Ég tel að það þurfi að gera til að allir geti sofið rólega yfir stjórnarskránni og haldið áfram að notfæra sér gæði og ávinninga EES-samningsins.

Hv. þingmaður nefndi að það væri eitt tiltekið dæmi sem hann teldi að bryti stjórnarskrána. Ég hef kannski ekki talað svo skýrt um þessi einstöku mál, en ég er hins vegar sammála þeim lagabrekkum sem rætt hafa við nefndina og ég sem utanríkisráðherra á sínum tíma fékk til þess að gera álit á tveimur eða þremur þessara mála þar sem menn sögðu það algjörlega skýrt að þó að hugsanlega væri hægt að lifa með einstökum málum væru þau skoðuð þröngt og bara þau, væri annað uppi ef maður legði þau öll saman. Þá mundi dragast upp heildarmynd sem gerði það að verkum að sambýli væri ekki lengur mögulegt.

Í öllu falli er ég þeirrar skoðunar, þótt ég hafi ekki verið hennar fyrir tíu árum, að við eigum ekki að láta koma upp tilvik sem dómstólar eiga að skera úr um þegar stjórnarskráin segir annað. Ég hef öðlast meiri og dýpri sannfæringu fyrir mikilvægi hennar og ég tel að hún eigi alltaf að njóta vafans.

Er ekki hv. þingmaður sammála mér um það?