143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[18:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði í sambandi við það að þau tilvik sem menn hafa verið að tala um eru afmörkuð, þau eru frekar fá. Ég lagði áherslu á það, ekki af því ég teldi að það væri í lagi að brjóta stjórnarskrána ef það væri bara gert sjaldan og á afmörkuðum sviðum, heldur bara til þess að draga það fram að það er ekki eins og svona mál flæði yfir okkur í tugatali á hverju ári. Það er ekki eins og við höfum verið að gera þetta í einhverjum stórum stíl. Þetta hefur gerst í tiltölulega fáum tilvikum og í hvert skipti hefur mál fengið tiltölulega góða skoðun, bæði af hálfu stjórnkerfisins og í þinginu. Það hefur verið rætt sérstaklega út af þessu.

Ég vona að þessi orð mín hafi náð að skýra það þannig að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra og aðrir áheyrendur velkist ekki í vafa um að ég tel að vissulega eigi stjórnarskráin að jafnaði að njóta vafans, þó að við viðurkennum auðvitað að í því orðalagi að segja að eitthvað eigi að njóta vafans verði að vera innan skynsemismarka, það verður að byggja á einhverjum rökstuðningi, að stjórnarskráin sé í hættu eða að það sé með einhverjum hætti verið að þrengja að henni eða sauma að þeim reglum sem þar er að finna. Þetta er svona svipað eins og þegar menn tala um að náttúran eigi alltaf að njóta vafans. Hvað ætla menn að ganga langt í því?

Þegar árekstur verður milli stjórnarskrár og EES-samnings er ég sammála hv. þingmanni um að það er auðvitað stjórnarskráin sem á að gilda, ekki EES-samningurinn. Ég held að það sé mikilvægt m.a. í því ferli sem hæstv. utanríkisráðherra hefur boðað í tengslum við Evrópustefnu að þeim skilaboðum sé hugsanlega haldið oftar og stífar fram við samningsaðila okkar innan Evrópska efnahagssvæðisins (Forseti hringir.) að stjórnarskrá okkar sé ekki með sama (Forseti hringir.) hætti og þeirra og til þess þurfi að taka tillit þegar (Forseti hringir.) verið er að gera breytingar sem varða (Forseti hringir.) Evrópska efnahagssvæðið.