143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[18:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka fyrst og fremst undir þau orð hv. þingmanns að mikilvægt sé að stjórnarskrárákvæði séu skýr, og eins skýr og kostur er. Við munum hins vegar aldrei geta skrifað stjórnarskrártexta með þeim hætti að ekki komi upp álitamál. Ég held að reynsla annarra þjóða sem hafa tekið ákvæði upp í sínar stjórnarskrár um heimild til takmarkaðs framsals eða hvernig það er orðað, það er orðað með mjög mismunandi hætti í nágrannalöndum okkar, að ekkert slíkt ákvæði útilokar að það komi upp vafamál. Við þekkjum það til dæmis í umræðu um stöðu mála í Noregi, að frá gerð EES-samningsins hafa allar breytingar sem lotið hafa að honum verið túlkaðar með þeim hætti að þar sé um að ræða minni háttar framsal. Það er hins vegar ekkert óyggjandi. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því.

Ég held, jafnvel þó það yrði til bóta að hafa eins skýra reglu um þetta í stjórnarskrá og kostur er, að vandamálin muni ekki öll hverfa. Við getum kannski fækkað þeim, við getum fært til línuna í þessu þannig að vandamálin verði færri, en ég held að vafamál muni áfram koma hér upp, hvort sem það tengist því hvort mál fela í sér minni háttar framsal eða meiri háttar framsal, hvort yfir höfuð er um framsal að ræða eða ekki. Ég held að þau vandamál muni áfram dúkka upp með einum eða öðrum hætti, en hugsanlega í færri tilvikum en við sjáum fram á núna.

Ég ætla svo sem ekki að fara lengra í umræðunni. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að mikilvægt sé að þessi mál séu skoðuð og rædd (Forseti hringir.) í framtíðinni. Þess vegna fagna ég því að utanríkisráðherra hefur boðað að gerð verði úttekt (Forseti hringir.) á stöðu EES-samningsins (Forseti hringir.) á þessu ári (Forseti hringir.) sem vonandi gefur okkur kost á að fara í (Forseti hringir.) ítarlegri umræður um nákvæmlega þessi (Forseti hringir.) vandamál og önnur (Forseti hringir.) sem þessu tengjast.

(Forseti (SilG): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)