143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

Norræna ráðherranefndin 2013.

398. mál
[18:56]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

(Gripið fram í.) Þrjú ríki af fimm eru í Evrópusambandinu. Fyrir 20 árum þegar ég var í námi í Svíþjóð gekk Svíþjóð einmitt í Evrópusambandið og Finnland líka. Þá voru miklar vangaveltur um það hvort norrænt samstarf mundi lifa af þær breytingar og jafnvel töldu menn að það mundi leggjast algjörlega af. Ef við horfum hins vegar til baka yfir þessi 20 ár sýnist mér norrænt samstarf mjög sterkt. Það hefur haldið áfram að eflast.

Ég fann það mjög sterklega á til dæmis kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir stuttu þar sem allir norrænu jafnréttisráðherrarnir tilkynntu komu sína, við vorum með sameiginlega viðburði án þess að vera búin að ræða okkur saman, og við vorum öll mjög samhljóða um áherslur okkar sem sneru að jafnréttismálum. Ég held að það endurspegli þessi norrænu gildi, áherslu á lýðræði, mannréttindi og jafnrétti.

Þrátt fyrir að menn hafi farið í samstarf við önnur ríki hefur það svo sannarlega ekki breytt áherslunni á norrænt samstarf og það er mjög jákvætt.