143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

Vestnorræna ráðið 2013.

358. mál
[19:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega greinargerð um starfsemi Vestnorræna ráðsins.

Ég vil rifja upp að á síðasta kjörtímabili var ég ákafur talsmaður þess, til að leggja meiri áherslu á vægi þessa samstarfs, að settur yrði upp árlegur fastur viðburður þar sem forsætisráðherrar, æðstu menn þessara þriggja landa, kæmu saman og héldu fundi, hugsanlega í tengslum við fundi Vestnorræna ráðsins, þannig að á hverju einasta ári yrði toppfundur þeirra þriggja.

Mér tókst það ekki. Það reyndust vera alls konar fjötrar og þröskuldar í vegi og reyndar verð ég að segja að mér fannst jafnan erfitt að ná sameiginlegum fundum þessara þriggja þjóða.

Ég tel að þetta sé eitt af því sem þingmennirnir sem sitja í ráðinu eigi að taka upp og samþykkja ályktanir um eftir rökræðu og beina þessu til æðstu manna landanna. Ég held að þetta skipti máli til að leggja áherslu á samvinnu þessara þriggja þjóða.