143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

NATO-þingið 2013.

371. mál
[20:07]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2013.

Á vettvangi NATO-þingsins árið 2013 bar hæst, eins og undanfarin ár, umræðu um aðgerðir NATO í Afganistan sem er sú umfangsmesta í sögu bandalagsins. Verkefnið í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta en sér nú fyrir endann á því með fyrirhuguðu brotthvarfi NATO frá Afganistan síðari hluta árs 2014. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan, ISAF, hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003, en síðan þá hefur aðgerðum NATO utan Evró-Atlantshafssvæðisins fjölgað stórlega. Verkefnið hefur gengið samkvæmt áætlun miðað við að unnið sé út frá ákvörðun sem tekin var á leiðtogafundi NATO í Lissabon í nóvember 2010. Þar var lögð áhersla á að árið 2014 yrði yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana lokið og Afganir gætu sjálfir tryggt eigið öryggi og byggt upp innviði samfélagsins, bæði hvað varðar her og lögreglu, en NATO mundi veita áframhaldandi stuðning eftir þörfum. Nefndarmenn lýstu yfir áhyggjum af spillingu, óstöðugleika og viðbrögðum nágrannaríkja við brotthvarfi NATO auk getu innan lands varðandi þróun mála næstu missiri.

Einnig ber að nefna umræðu um ástandið í Sýrlandi og áhyggjur NATO-þingmanna af straumi flóttamanna til nágrannaríkja en áætlað er að yfir tvær milljónir manna hafi flúið land. Lögð var áhersla á nauðsyn þess að fylgjast vel með þróun mála í nágrannaríkjum Sýrlands sem eiga á hættu að dragast inn í hringiðu óstöðugleika vegna borgarastríðsins í Sýrlandi. Jafnframt var tíðrætt um stefnu NATO sem samþykkt var á leiðtogafundi bandalagsins sem haldinn var í Chicago í maí 2012 og miðar að því að sameina krafta aðildarríkjanna meira en áður í þágu varnarviðbúnaðar í því skyni að nýta opinbera fjármuni betur á tímum mikils niðurskurðar. Stefnan gengur undir heitinu snjallvarnir eða samvinna um varnarbúnað og er ætlað að tryggja NATO nauðsynlegan búnað í samræmi við nýja grunnstefnu bandalagsins.

Þá voru samskipti NATO við Rússland að vanda áberandi árið 2013. Áhersla var lögð á mikilvægi skipulegs samstarfs NATO og Rússlands gegn sameiginlegum öryggisógnum eins og alþjóðlegum hryðjuverkum, útbreiðslu kjarnorkuvopna, sjóránum og ekki síst varðandi málefni Afganistans. Einnig var áhersla á niðurstöðu leiðtogafundarins í Lissabon árið 2010 þar sem Rússum var boðin samvinna um eldflaugavarnir. Erfitt hefur reynst að ná samstöðu milli aðila um hvernig samvinnu skuli háttað og hafnaði NATO kröfum Rússa um sameiginlega stjórn á eldflaugavarnakerfinu. Uppsetning á kerfinu er hafin þrátt fyrir andstöðu Rússa en stefnt er að því að varnarkerfið verði að fullu komið í gagnið árið 2020.

Efnahagsleg tækifæri og hlutverk NATO á norðurskautssvæðinu voru jafnframt til umræðu. Í skýrslu um málið var lögð áhersla á Norðurskautsráðið sem aðalsamráðsvettvang norðurskautsríkjanna og mikilvægi þess að styðja við þann lagaramma og þá alþjóðasamninga sem eru til staðar á svæðunum og hafa gagnast vel. Í niðurstöðum skýrslunnar er áréttað að aðildarríki NATO hafi ekki skilgreint hlutverk bandalagsins á svæðinu en mikilvægt sé að fylgjast vel með þróun mála þótt útlit sé fyrir að deilur sem upp geti komið verði leystar á friðsamlegan hátt eins og hingað til. Þá sé aukin samvinna við norðurskautsríkin mikilvæg, ekki síst þegar horft sé til öryggis- og björgunarmála á sjó og verndun umhverfis.

Einnig var rætt um mikilvægi þess að NATO starfaði nánar með alþjóðlegum samstarfsaðilum, einkum Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu. Leysa þyrfti þann ágreining sem skapast hefði milli NATO og ESB sem sneri að stórum hluta að niðurskurði aðildarríkja ESB til varnarmála. Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar árið 2013 má nefna útfærslu NATO-þingsins og bandalagsins á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi, fjárveitingar til varnarmála og samstöðu innan NATO, kjarnorkuáætlun Írans, ástandið í Malí og mikilvægi þess að NATO-þingið kynni starfsemi sína fyrir almenningi í aðildarríkjum.

Aðalmenn Íslandsdeildarinnar voru fyrri hluta ársins 2013 Björgvin G. Sigurðsson formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Ragnheiður E. Árnadóttir varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Birgitta Jónsdóttir, þingflokki Hreyfingarinnar.

Eftir alþingiskosningar 27. apríl 2013 var ný Íslandsdeild kosin og eru aðalmenn seinni hluta starfsárs sú sem hér stendur, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Össur Skarphéðinsson varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Undir skýrsluna skrifa allir stjórnarmenn og að lokum vil ég þakka þeim gott samstarf.