143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Lýðveldisins Kostaríka og Lýðveldisins Panama.

328. mál
[20:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kostaríka og Lýðveldisins Panama sem undirritaður var í Þrándheimi 24. júní 2013.

Samningurinn við Kostaríka og Panama er mikilvægur fyrir bættan markaðsaðgang fyrirtækja í EFTA-ríkjunum, þar á meðal íslenskra fyrirtækja að markaðnum í Kostaríka og Panama. Samningurinn mun draga úr viðskiptahindrunum og bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja þar í landi. EFTA-ríkin hafa gert 25 fríverslunarsamninga við ríki eða ríkjahópa að samningnum við Kostaríka og Panama meðtöldum.

Fríverslunarsamningur EFTA við Kostaríka og Panama er fyrsti fríverslunarsamningurinn sem EFTA-ríkin hafa undirritað sem tekur einnig til óunninna landbúnaðarvara, en fram að þessu hafa EFTA-ríkin alla jafna gert tvíhliða landbúnaðarsamninga samhliða gerð fríverslunarsamninga. Þessi formbreyting hefur þó ekki efnislega þýðingu í för með sér. Í stað sérstakra landbúnaðarsamninga er kveðið á um þær tollaívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarafurðir sem samningsaðilar veita hvorir öðrum í viðaukum við samninginn. Bæði Kostaríka og Panama fella m.a. niður tolla á íslenskt lambakjöt strax við gildistöku samningsins og þá fella ríkin einnig niður tolla á vatn að loknu fimmtán ára aðlögunartímabili. Ísland fellir m.a. niður tolla á ýmsar tegundir lifandi plantna, svo sem ákveðnar tegundir afskorinna blóma, jólatré, ýmsar matjurtir og ávaxtasafa.

Útflutningur til Kostaríka og Panama er lítill. Á undanförnum árum hefur einkum verið um að ræða tæki til matvælaframleiðslu til Kostaríka. Með lækkun tolla skapar samningurinn forsendur fyrir auknum viðskiptum.

Fríverslunarsamningurinn við Kostaríka og Panama kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þannig mun Panama fella niður alla tolla af sjávarafurðum frá Íslandi við gildistöku samningsins og Kostaríka fella niður tolla af sjávarafurðum frá Íslandi við gildistöku samningsins eða að loknu fimm ára aðlögunartímabili. Þá mun tollur af öllum helstu iðnaðarvörum frá Íslandi falla niður frá gildistöku samningsins eða að loknu aðlögunartímabili, í síðasta lagi fyrir árið 2029.

Fríverslunarsamningurinn er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Með samningnum er kveðið á um að öll ríki Mið-Ameríkusvæðisins geti gerst aðilar að honum að því gefnu að sameiginleg nefnd aðila samningsins samþykki aðildina.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.