143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

fríverslunarsamningur EFTA og Bosníu og Hersegóvínu og landbúnaðarsamningur sömu ríkja.

329. mál
[20:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja og Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Bosníu og Hersegóvínu sem undirritað var í Þrándheimi 24. júní 2013.

Jafnframt er leitað heimilda til fullgildingar á landbúnaðarsamningi milli Íslands og Lýðveldisins Bosníu og Hersegóvínu sem undirritaður var sama dag.

Samningur við Bosníu og Hersegóvínu er mikilvægur til að bæta aðgang fyrirtækja í EFTA-ríkjum þar á meðal íslenskra fyrirtækja að markaðnum í landinu. Samningurinn mun draga úr viðskiptahindrunum og bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja þar í landi. EFTA-ríkin hafa gert 25 fríverslunarsamninga við ríki eða ríkjahópa að samningnum við Bosníu og Hersegóvínu meðtöldum.

Í tengslum við þessa samninga hafa verið gerðir sérstakir tvíhliða samningar milli einstakra EFTA-ríkja og viðkomandi ríkis eða ríkjahóps um verslun með óunnar landbúnaðarvörur.

Útflutningur Íslands til Bosníu og Hersegóvínu er almennt lítill. Með lækkun tolla skapar samningurinn forsendur fyrir auknum viðskiptum.

Fríverslunarsamningurinn við Bosníu og Hersegóvínu kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á sjávarafurðir og allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður við gildistöku samningsins eða að loknu þriggja til fimm ára aðlögunartímabili.

Fríverslunarsamningurinn inniheldur auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Samningurinn við Bosníu og Hersegóvínu er af svokallaðri fyrstu kynslóð fríverslunarsamninga þar sem ekki er samið sérstaklega um þjónustuviðskipti, en samningsaðilarnir stefna að því að ná fram í áföngum auknu frelsi fyrir þjónustuviðskipti.

Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Bosníu og Hersegóvínu er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Bosníu og Hersegóvínu. Landbúnaðarsamningurinn myndar hluta fríverslunarsvæðisins, ásamt slíkum samningum annars vegar milli Noregs og Bosníu og Hersegóvínu og hins vegar milli Sviss og Bosníu og Hersegóvínu, auk fríverslunarsamningsins. Verslun með óunnar landbúnaðarvörur fellur undir landbúnaðarsamninginn og kveður hann á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Bosnía og Hersegóvína mun m.a. fella niður tolla á heilum og hálfum lambaskrokkum og lækka tolla á öðrum lambakjötsafurðum. Landbúnaðarsamningurinn öðlast gildi sama dag og fríverslunarsamningurinn.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.