143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 226/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

349. mál
[20:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst það táknrænt að hæstv. utanríkisráðherra skuli flytja þetta mál. Hann hefur verið iðinn við það síðustu vikur að beita pólitísku sprengiefni hér í þessum sölum og kasta hverri handsprengjunni á fætur annarri. Við höfum ekki þurft neinar erlendar kröfur til þess, að rekja það til föðurhúsa hæstv. ráðherra. Ég kem hér til þess að óska hæstv. ráðherra til hamingju. Mér finnst hann standa sig alveg rosalega vel í að aðlaga íslenskt regluverk að regluverki EES og ESB.

Ég tel að þessi tillaga og reyndar hin næsta líka á eftir, sem ég ætla ekki að ræða mikið um, séu mjög í góðu samræmi við hina nýju Evrópustefnu sem hæstv. ráðherra hefur kynnt þingi og þjóð. Eitt helsta auðkenni hennar er það að hæstv. ráðherra ætlar sér að reyna það sem hann getur til þess að hraða aðlögun Íslands að Evrópusambandinu og gera það betur en allir forverar hans. Ég óska honum til hamingju með það og lýsi því yfir að ég mun ekki standa í vegi fyrir því að þessi ágæta þingsályktun verði samþykkt og mun gera mitt besta til þess að hjálpa hæstv. ráðherra í þeirri einbeittu viðleitni sinni að aðlaga íslensk lög sem best að Evrópusambandinu.