143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

norðurskautsmál 2013.

374. mál
[20:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem formlega var sett á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnu um málefnið, fylgja eftir samþykktum hennar sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta málefni norðursins sig varða. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og er einn þingmaður frá hverju aðildarríki með setu í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök frumbyggja og ólíkra þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í nefndinni, auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið.

Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka sem byggja landsvæðin við norðurskaut sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Einnig hefur opnun nýrra siglingaleiða, orkuöryggi og nýting orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt hlotið aukna athygli nefndarinnar síðustu ár.

Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2013 leggur Íslandsdeild áherslu á að nefna mál sem snúa til dæmis að viðskiptaþróun á norðurslóðum þar sem nefndarmenn lögðu áherslu á sjálfbærni, orkumál og mannlífsþróun. Vinna við drög að skýrslu um málið hófst á árinu 2013 og mun halda áfram á árinu 2014, en fyrirhugað er að leggja skýrsluna fram á næstu ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem verður haldin í Whitehorse í Kanada í 9.–11. september nk.

Þá lagði nefndin að venju ríka áherslu á umhverfismál og horfði sérstaklega til loftslagsbreytinga á svæðinu. Nefndarmenn kynntu sér og ræddu framgang vinnu við aðra skýrslu um mannlífsþróun á norðurskautssvæðinu, Arctic Human Development Report II, sem fyrirhugað er að verði gefin út árið 2014. Áhersla var meðal annars lögð á aðlögun samfélaga á svæðinu í ljósi breyttra aðstæðna sem skapast með loftslagsbreytingum.

Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefndin ráðstefnu um norðurskautsmál og var fyrsta þingmannaráðstefnan, eins og ég kom inn á áðan, haldin í Reykjavík árið 1993. Á ráðstefnum þingmannanefndarinnar kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, fræðasamfélögum og félagasamtökum er láta sig málefni norðurslóða varða. Eitt meginviðfangsefnið er að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu og lögð var áhersla á það verkefni á síðasta ári.

Í yfirlýsingu tíundu ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem haldin var á Akureyri í september 2012 var tilmælum beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar var meðal annars kallað eftir frekari eflingu Norðurskautsráðsins með áherslu á mikilvægi þeirrar þróunar að Norðurskautsráðið verði í ríkari mæli vettvangur ákvarðanatöku en ekki eingöngu stefnumótandi. Einnig er sjónum beint að auknu samstarfi við Alþjóðasiglingamálastofnunina varðandi auknar siglingar um norðurheimskautssvæðið og aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa norðurskautsins.

Af öðrum málum sem voru áberandi í umræðu hjá nefndinni á árinu 2013 má nefna stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins, áhersluatriði undir formennsku Svía á fyrri hluta árs og Kanadamanna á seinni hluta árs í Norðurskautsráðinu og umfjöllunarefni elleftu ráðstefnu nefndarinnar sem haldin verður, eins og áður sagði, í Whitehorse 2014. Valin hafa verið þrjú meginþemu fyrir þá ráðstefnu, í fyrsta lagi er sjálfbær þróun á norðurslóðum, í öðru lagi viðskiptaþróun á svæðinu og í þriðja lagi áhrif loftslagsbreytinga. Af öðrum málum sem voru áberandi í umræðunni í nefndinni má sjá opnun nýrra siglingaleiða, vistfræðilega stjórnun og samstarf og stjórnskipulag á svæðinu.

Virðulegi forseti. Þetta er nýr vettvangur fyrir mig til að starfa á en ég tók á síðasta ári sæti fyrir hönd Alþingis í þessari þingmannanefnd um norðurskautsmál. Fyrir stuttu var haldinn fundur í þessari nefnd í Ottawa í Kanada sem að mörgu leyti var mjög áhugaverður og mig langar að fara örfáum orðum um.

Eitt af þeim stóru vandamálum sem við stöndum frammi fyrir, og reyndar er mikil áhersla lögð á að taka tillit til, er lífshættir og aðstæður frumbyggja, þeirra sem hafa byggt þessi svæði í gegnum aldirnar. Aðstæður þeirra í dag eru mjög erfiðar. Þessi samfélög hafa orðið fyrir miklum áföllum, sérstaklega vegna þess að hefðbundin framleiðsla þeirra og framleiðsluaðferðir njóta að mínu mati ekki viðurkenningar alþjóðasamfélagsins. Þannig sjáum við að Evrópusambandið og Bandaríkin standa í vegi fyrir því að eðlileg viðskipti geti átt sér stað með afurðir af selum og hvölum og öðrum slíkum dýrum sem þó eru veidd með sjálfbærum hætti. Á sama tíma og við horfumst í augu við þau félagslegu vandamál sem þetta hefur skapað í þessum samfélögum, þar sem sjálfsmorðstíðni er með því hæsta sem þekkist í heiminum og áfengisvandamál og önnur félagsleg vandamál eru á mjög háu stigi, horfa menn til þess að reyna að koma inn með einhvers konar félagsleg úrræði, koma þarna inn með til dæmis sálfræðinga eða félagsfræðinga og reyna að breyta þessum samfélögum og aðlaga þau í stað þess, eins og ég nefndi á þessum fundi, að horfa til þess að hjálpa þjóðarbrotunum og þessum samfélögum til að verða sjálfbær.

Við tölum um það í skýrslum að lögð hafi verið sérstök áhersla á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Þetta er sagt með fögrum orðum í skýrslum sem eru gefnar út en á sama tíma er svo tvöfalt siðgæði í gangi að við stöðvum öll viðskipti með afurðir frá þessu fólki. Við leyfum því ekki að veiða, ekki vinna afurðirnar og ekki koma þeim á markað. Með öðrum orðum lokum við fyrir þeim öllum dyrum til að skapa sjálfbært samfélag.

Ég held að þau ríki sem eiga aðild að Norðurskautsráðinu þurfi að láta efndir standa þegar að þessum málaflokki kemur. Við þurfum að horfa til þess að greiða að minnsta kosti leið fyrir viðskipti á milli þessara landa, þ.e. þeirra landa sem byggja norðursvæðið, Rússlands, Norðurlandanna, Kanada og Bandaríkjanna. Við þurfum að greiða leið viðskipta fyrir þessa frumbyggja, þær þjóðir sem byggja þetta svæði, og í raun að hjálpa þeim til að stunda sjálfbæra nýtingu þeirra náttúruauðlinda sem þarna eru fyrir hendi, kenna þeim og hjálpa þeim að þróa viðurkenndari veiði- og vinnsluaðferðir og greiða leið fyrir afurðirnar inn á markað. Ég held að það sé miklu vænlegri leið, virðulegi forseti, til að ná árangri í því að standa við stóru orðin sem koma fram í þessum skýrslum en að líta á þetta sem eitthvert félagslegt vandamál sem verði að leysa með öðrum hætti.