143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[15:16]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar í ljósi frétta að spyrja hæstv. menntamálaráðherra út í stöðu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Það er svo sem þekkt að fjárhagsstaða skólans hefur verið mjög þröng undanfarin ár og hann hefur safnað upp skuldahala. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað kallað eftir aðgerðum til að bæta úr þessu ástandi.

Ráðherrann hefur lýst því yfir að sameining við HÍ gæti orðið til að styrkja skólann faglega og rekstrarlega. Ég vissi ekki betur en slíkt væri í skoðun eða skildi það þannig, en nú heyrist í fréttum — ég hef svo sem ekki fengið það staðfest með öðrum hætti — að ekkert verði af sameiningu þrátt fyrir að bæði hæstv. ráðherra og rektor skólans séu mjög áfram um það mál og telji það jákvætt skref fyrir skólann til framtíðar. Fyrir liggur að ef ekki verður af þessari sameiningu verður skólinn að draga verulega úr starfsemi sinni. Það er ekki hægt að una því að stofnun sé ítrekað rekin með halla og safni skuldahala. Það er aðeins eitt hægt að gera ef ekki á að setja meiri pening í skólann, þá þarf að skera niður þjónustuna. Þessar fréttir koma á óvart því að ég taldi að það væri skólanum fyrir bestu að af þessari sameiningu yrði, sérstaklega faglega séð, eins og hæstv. ráðherra hefur sjálfur lýst.

Ég hlýt að spyrja í ljósi þess að bæði hæstv. ráðherra og rektor tala fyrir þessari sameiningu: Hver er það í rauninni sem mótar menntastefnuna í landinu ef ekki ríkisstjórnin með ráðherra í broddi fylkingar?