143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[15:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt að það er skoðun mín að það væri allra hluta vegna skynsamlegast að fara í sameiningu Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Fyrir því eru fjölmörg rök. Ég hef lagt alveg gríðarlega vinnu í það í ráðuneytinu að grípa til ýmissa annarra aðgerða til þess að styrkja starfsemina á Hvanneyri. Aðgerðirnar mundu þá fylgja þeirri ákvörðun að byggja upp rannsóknastofnanir, fara í fjárfestingar o.s.frv. Allt grundvallast það þó á því að þessi sameining fari fram, að hægt verði að byggja kringum hana.

Það er því miður þannig, og það þekkja allir sem hafa fengist við stjórnmál, að ef sú staða kemur upp að það er eindreginn vilji allra sem að málinu koma, heimamanna, sveitarstjórnarmanna og eins þeirra sem eru í skólastarfinu, stórs hluta þeirra, ekki allra þó því að það er rétt sem hér var nefnt varðandi rektor skólans — að þeir leggjast þvert gegn sameiningu ásamt þeim aðila sem hefur einnig mikið að segja um málið, sem eru Bændasamtökin, þá verða menn að fara fram með nokkurri gát. En þá stöndum við frammi fyrir öðru. Þá stöndum við frammi fyrir því að skólinn, samkvæmt kröfu fjárlaganefndar og reyndar ábendingum ríkisendurskoðanda og eins frá fjármálaráðuneytinu, verður að fara inn fyrir fjárlög og það verður gert. Jafnframt þarf að hefja endurgreiðslur á þeim fjármunum sem hafa farið til skólans umfram það sem Alþingi hefur veitt. Ég óttast auðvitað að það hafi ekki góð áhrif á skólahaldið, ég held að það segi sig sjálft, en þessi staða er uppi.

Ég hef auðvitað hlustað eftir þeim rökum sem hafa komið frá heimamönnum. Ég hef hlustað eftir rökum Bændasamtakanna. Ég hef hlustað eftir því sem sveitarstjórnarmennirnir segja. Ég hef því sagt: Ég vil ekki fara fram í þvílíkum ágreiningi og þvílíkum átökum að það geti valdið stórskaða. Ég vil frekar hlusta eftir þessum rökum. En ég hef bent á það, og allan tímann hefur það legið fyrir af minni hálfu, að ef ekki næst samstaða um þessa leið þá blasir við okkur að þurfa að fara að tillögum og ábendingum fjárlaganefndar sem hefur (Forseti hringir.) sagt mjög skýrt: Það þarf að koma (Forseti hringir.) þessum skóla inn fyrir fjárlög (Forseti hringir.) og það þarf að hefja endurgreiðslur á (Forseti hringir.) þeim fjármunum sem skólinn hefur fengið umfram það sem Alþingi hefur samþykkt.