143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég deili þeim áhyggjum sem hv. þingmaður lýsti og tel mikilvægt að grípa til ráðstafana og koma þessum málum í fast form áður en menn missa þau úr böndunum og þetta verður enn flóknara viðureignar en það er.

Hvað varðar spurninguna um hvort þessi mál hafi verið til umræðu á vettvangi ríkisstjórnarinnar, já, menn hafa rætt þau þar. Málið er þó, eins og hv. þingmaður veit, á forræði hæstv. iðnaðarráðherra og ráðherrann hefur gert grein fyrir þeirri vinnu sem þar stendur yfir. Ég hef fulla trú á því að ráðherrann muni leiða það til lykta á þann hátt að gjaldtöku verði háttað þannig að hún muni nýtast fyrst og fremst til að byggja upp ferðaþjónustu, þ.e. að gera aðgengi að ferðamannastöðum betra og öruggara, og verði til þess fallið að aðstoða okkur við að taka á móti sífellt vaxandi fjölda ferðamanna.

Ég tel að það ástand sem nú sést glitta í með gjaldtöku hér og þar með ólíkum leiðum sé ekki viðunandi.