143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[15:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýr svör. Ég fagna því sem hann segir, bæði fagna ég því sérstaklega að hann sé sammála mér um matið á stöðunni en ég fagna því líka að hann segir að núverandi ástand sé óviðunandi og þess vegna sé brýnt að taka á því. Ég er sammála því.

Hins vegar hafa verið ýmsar hugmyndir í gangi og það er líka rétt að málið í heild sinni er á forræði hæstv. iðnaðarráðherra en ég mundi vilja hvetja hæstv. forsætisráðherra til að slá aðeins í klárinn hvað þessa vinnu áhrærir. Hér er um að ræða mál sem þarf að nást breið sátt og samstaða um í landinu öllu. Það þarf líka að tryggja rétt Íslendinga til að fara um eigið land þannig að ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að íhuga það með öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni hvort ekki væri ástæða til að efna til þverpólitísks samráðs og samstarfs um leiðir (Forseti hringir.) sem við öll gætum fellt okkur vel við og þjóðin í heild sinni.