143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[15:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri ekki bara hugvitssemi ráðherrans að reyna að undanskilja öll íslensk skip frá einhverri innleiðingu frá Evrópusambandinu. Hins vegar er þetta inntak innleiðingarinnar sem hér er verið að setja í íslenskan rétt. Ef mér skjöplast ekki mjög er þetta með nákvæmlega sama hætti og Norðmenn innleiddu samsvarandi tilskipun.

Varðandi þau skip sem eru í reglubundnum siglingum er ekki hugmyndin að þau fái einhvern veginn undanþágu frá þessu vegna þess að þau hafa þó einhverja höfn sem þau skila úrganginum til. Eins og ég sagði í inngangsræðu minni eru þessi mál í býsna góðum farvegi í dag en það er hins vegar nauðsynlegt að innleiða þetta með réttum hætti, koma þessari aðstöðu alls staðar fyrir. Þó að hana sé víðast hvar að finna og það í mjög góðu lagi þarf að tryggja þetta og síðan þarf líka að setja inn gjaldtökuheimild til að menn geti staðið undir þessu af sanngirni.

Það er ekki svo að ekkert standi eftir þegar þetta er búið. Þó að það kunni að hafa hljómað þannig í ágætu andsvari hv. þingmanns hljóðar innleiðingin hreinlega upp á þetta og við gerum það með mjög sambærilegum hætti og Norðmenn gerðu á sínum tíma.