143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[15:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrsta atriðið, hvort verið sé að ganga lengra en innleiðingin segir til um, er ekki svo. Gengið er jafn langt og innleiðingin fer fram á. Eins og ég sagði í fyrra andsvari við hv. þm. Össur Skarphéðinsson er þetta gert á sambærilegan hátt og menn gerðu til að mynda í Noregi.

Varðandi það af hverju þetta hafi ekki verið gert áður og þá á réttan hátt upphaflega get ég ekki svarað nákvæmlega fyrir það. Það eru nokkur ár síðan tilskipunin var innleidd. Eins og ég sagði í inngangsorðum mínum er ástandið hér býsna gott og menn hafa sennilega talið að það væri ásættanlegt og hægt væri að innleiða þetta á einfaldari hátt en ESA komst að við nákvæmari skoðun. Við þekkjum það auðvitað að oft og tíðum eru aðstæður hér talsvert frábrugðnar því sem sá lagagrundvöllur sem Evrópa og Evrópusambandið setja sér vegna allt annarra hagsmuna þar sem ríki liggja nálægt hvert öðru og mengun berst mjög auðveldlega frá einu ríki til annars, þeir hagsmunir eru aðrir en hjá okkur. Ég býst við að það sé ástæðan. Hér er fyrst og fremst verið að bregðast við þeim athugasemdum sem hafa komið fram og jafnframt verið innleiða í íslensk lög nýlegri innleiðingu, til að ganga frá því í leiðinni og gera það skýrt.

Hvað varðar hversu margir starfa að þessum sviðum og hverjir fara með viðurlögin er það annars vegar Umhverfisstofnun og hins vegar starfsmenn hafnasambandanna og er það ekki algjörlega frágengið. Ég treysti því að nefndin muni fara yfir það með ráðuneytinu nákvæmlega hvernig sú útfærsla á að vera og hversu margir muni vinna að þessu. Við þekkjum það að það er vissulega umfangsmikið (Forseti hringir.) verkefni að fylgjast með menguninni í allri efnahagslögsögu Íslands og ég þori einfaldlega ekki að upplýsa hv. þingmann (Forseti hringir.) um hversu margir starfsmenn vinna að því, en skal reyna að komast að því og upplýsa þingheim og hv. þingmann.