143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[15:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins hnykkja á skýringum frá hæstv. ráðherra um það sem lýtur að athugasemdum ESA og hvers vegna ESA tekur málið til umfjöllunar. Ef um smávægileg atriði er að ræða sem varða málaflokk sem hér er í góðu lagi, tók ESA þetta mál þá upp hjá sjálfu sér? Hefur Eftirlitsstofnunin ekkert betra að gera en að fjalla um atriði sem eru í góðu lagi og eru fremur smávægileg? Eða var það einhver sem kærði þetta eða snýr þetta að einhverjum hagsmunum sem tók því að rannsaka?

Hitt skal ég svo upplýsa hæstv. ráðherra um að síðast þegar ég aðgætti var hálft stöðugildi hjá Umhverfisstofnun sem sinnti mengun hafs og stranda. Þau held ég að hafi áður og fyrr meir verið fjögur heil stöðugildi til þess að sinna því mikilvæga verkefni. Ég verð að segja að ef það er enn þá svo að það er eitt verkefna (Forseti hringir.) eins starfsmanns að gæta að þessum mikilvæga málaflokki finnst mér það vera eitthvað (Forseti hringir.) sem umhverfisráðherra þurfi að taka til sérstakrar skoðunar (Forseti hringir.) og þurfi að sinna betur en við gerum í dag.