143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[15:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held áfram að kynna mér málefni umhverfis- og auðlinda-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, ég hnaut nefnilega um það líka að fá skip virtust standa eftir þegar maður var búinn að lesa sig í gegnum frumvarpið.

Það er talað um að Umhverfisstofnun eigi að koma með tillögu um gjaldskrá, sem ráðherra setur svo að fengnum þeim tillögum, fyrir þetta reglulega eftirlit sem hún á að hafa. Ég velti bara fyrir mér hvort ekki liggi fyrir nú þegar kostnaður hjá sveitarfélögunum og höfnunum sem hægt er að taka mið af. Er þetta það mikil breyting að það þurfi algjörlega að vinna þetta upp á nýtt?

Þetta er aukinn kostnaður á útgerðaraðilana, þetta eru gjöld sem verið er að rukka, en það er talað um að þetta séu óveruleg gjöld fyrir sveitarfélagið og óveruleg gjöld fyrir ríkið þó að ekki sé beint tekin afstaða til sveitarfélaganna hér. Einhver borgar væntanlega, er það þá útgerðin sem á að borga þann viðbótarkostnað sem til fellur?

Svo langar mig líka í lokin að spyrja út í aðstöðuna. Hæstv. ráðherra sagði að þetta væri yfirleitt gott og aðstaðan í lagi en samt er í frumvarpinu talað um að í flestum tilvikum verði ekki komið upp eiginlegri aðstöðu heldur verður hún færanleg. Er hún til staðar á mjög mörgum (Forseti hringir.) eða fáum stöðum?