143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég átti við er að á bls. 8 er talað um upptöku ákvæðis um að leggja gjöld á skip án tillits til þess hvort þjónusta sé veitt eður ei, og Hafnasambandið gagnrýnir að það þýði þá að gjaldið geti ekki talist þjónustugjald heldur skattur.

Síðan er ákvæðinu í rauninni breytt með því að setja gjaldið inn í hafnargjöldin, eins og kemur fram síðar í frumvarpinu. Hafnasambandið nefnir það aftur að þar sem gjöld eigi í einhverjum tilfellum að innheimta án þess að nýtt sé þjónusta í höfn, sé um skatt að ræða en ekki þjónustugjald.

Það eru allir látnir borga og það er fært inn í hafnargjöldin, gjaldliðurinn er færður inn í hafnargjöldin, þannig að það er í rauninni bara verið að færa gjaldið til. Í staðinn fyrir að hafa það sem beinan skatt er verið að setja það inn í hafnargjaldið og mér finnst það í rauninni bara vera falin skattheimta, vegna þess að þeir sem eru kannski jafnvel ekki að losa úrgang borga það.