143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég velti fyrir mér af því að fram kemur í skýrslu sem þetta byggir allt á að mikilvægt sé að það sé frelsi hjá aðildarríkjunum að byggja upp endurheimtukerfið, en að tryggja þurfi að kerfið feli ekki í sér hvata fyrir skipin að losa frekar úrgang í hafið en að farga honum í móttökustöðinni. Ég er sammála því markmiði að það er gríðarlega mikils virði að skip losi ekki úrgang í hafið heldur komi með hann til hafnar.

Talað er um að útreikningurinn skuli taka mið af því hve margir eru í áhöfn skipsins sem og í hve marga daga ferð skipsins hefur varað. Þetta verða náttúrlega svolítið mótstríðandi markmið. Annars vegar er hvatinn í sjálfu sér sá að gjaldið verði lágt, þú hefur engin áhrif á það ef þú ert með svo og svo marga í áhöfn og ákveðinn dagafjölda, þá er gjaldið bara reiknað út frá því. En hins vegar ef félag sem gerir út skip, hvers konar skip sem það kann að vera, hefur þá stefnu að reyna að draga úr sorpi um borð í skipum sínum, þá fær það ekki umbun fyrir það í þessu gjaldi því að gjaldið yrði fast. Þá skiptir náttúrlega máli hversu umfangsmikið það sorp eða úrgangur er sem fellur til af skipum. Sér þingmaðurinn ekki ákveðna mótsögn þarna?