143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er gaman að eiga orðastað við hæstv. auðlinda- og umhverfisráðherra vegna þess að hann er yfirleitt skýr í svörum og ólíkt flestum öðrum ráðherrum, þó ekki öllum, þá hefur hann gjarnan svör á reiðum höndum og hefur kynnt sér málið. Ef í ljós kemur að hann hefur ekki svör hefur hann líka sýnt, eins og oft er ástatt um menn sem eru með svipaða þyngdarpunkta og ég og hæstv. ráðherra, að hann er býsna slyngur að skauta líka.

Ég ætti auðvitað að hefja ræðu mína á því að halda hér langan fyrirlestur yfir hæstv. ráðherra um gildi jafnaðarstefnunnar og samvinnu hennar og félagshyggjunnar í gegnum tímann. Hæstv. ráðherra lauk einni af ræðum sínum áðan giska beiskjublandinn og sagði sem svo þegar þetta frumvarp var gagnrýnt og spurt um erindi þess og tilgang inn í íslenska tilveru, að þetta væri nú eitt af því sem menn þyrftu að gera ef þeir ætluðu sér að taka einhverja mola upp sem hrytu af ESB-borðinu. Það væri borð jöfnuðar, og mátti á honum skilja að það væri mikið vitleysisborð og að taka þyrfti öllu þaðan, sama hversu vitlaust sem það væri.

Það er hins vegar rangt, herra forseti. Það eru mörg dæmi um að hingað hafi komið tilskipanir sem Íslendingar hafa ekki séð að rími mjög vel við íslenskan veruleika, og hefur þá tekist að koma þeim út. Ég nefni sem dæmi að þegar Íslendingar innleiddu hér fyrr á tíð alls konar tilskipanir og gerðir sem vörðuðu járnbrautir, sem ekki er að finna á Íslandi, þá var fundin leið til að setja þær í dvala. Það er hlutverk ráðherra og framkvæmdarvalds hverju sinni ef tilskipanir koma sem mönnum finnst að eigi ekki nægilega vel við íslenskan veruleika að koma því þá svo fyrir að frumvarpið sem lagt er fram á grundvelli viðkomandi tilskipunar standist a.m.k. almenn skynsemdarmörk. Ég verð að segja það hæstv. ráðherra til hróss og hans góða starfsfólki að þetta frumvarp, sem á auðvitað erindi líka til okkar, er alla vega sett fram með þannig umbúnaði að það er skynsemdarhyggja í því.

Varðandi jöfnuðinn og Evrópusambandið má hæstv. ráðherra ekki gleyma því að sá flokkur sem hann tilheyrir hefur alltaf, a.m.k. fram undir hið síðasta, haft á sínum borðum tiltölulega góðan slatta af félagshyggju- og jafnaðarstefnu. Það má rifja upp fyrir hæstv. ráðherra, ef hann heyrir mál mitt, herra forseti, að það var sama höndin sem ritaði stefnuskrár flokkanna, Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins. Og þó að hæstv. ráðherra deili ekki sömu sýn og einn af forverum hans og upphafsmönnum Framsóknarflokksins, Jónas frá Hriflu, um samvinnu bænda og verkamanna á mölinni, þá er ég þeirrar skoðunar að sú framtíðarsýn sé í fullu gildi.

Hæstv. ráðherra varpaði því fram að það mætti í sjálfu sér færa sterk rök fyrir því að hér væri verið að hrinda mengunarbótareglunni í framkvæmd að því er varðaði skip sem sigla til Íslands og menn gruna stundum um að hafa losað í höfin efni sem ekki eru æskileg. Hann velti því upp hvernig stæði eiginlega á því að ekki hefðu verið sett almennileg lög fyrr en forveri þessara laga var samþykktur af Alþingi. Ástæðan er sú að það var reynt miklu fyrr. Hér eru a.m.k. tveir gamlir umhverfisráðherrar í salnum og í það minnsta annar þeirra, þ.e. ég, lenti í því að reyna að brjóta fram leiðina fyrir lög af þessu tagi sem skylda ættu sérstaklega olíuskip til þess að losa sannanlega allan úrgang í höfnum. Því var á móti mælt þá vegna þess að talið var að það gæti jafnvel hvatt skipin til þess að losa fremur á úthafinu en að fylgja mengunarbótareglunni og greiða fyrir förgun þeirra í landi. Meginvandinn við þetta frumvarp er vitaskuld að þarna er ákveðið einstigi sem þarf að feta. Það skilur hæstv. ráðherra vegna þess að hann sagði í ræðu sinni að haga yrði gjaldtökunni með þeim hætti að tryggt væri að hún fæli ekki í sér hvata til þess að skipin gripu til slíkra óyndisúrræða. Það er erfitt að fella dóm um það hvort frumvarpið nær að uppfylla þá forsendu.

Herra forseti. Ég er með örfáar spurningar til hæstv. ráðherra. Er hann hér einhvers staðar?

(Forseti (EKG): Hæstv. ráðherra er hér nærri og ég hygg að hann heyri mál hv. þingmanns en við munum ganga úr skugga um það.)

Já, ég hef miklar mætur á skilningarvitum hæstv. ráðherra og hann hefur sýnt það að hann er oft sem í holti heyrandi nær, en ég sakna þess að hann skuli ekki vera hér og hlýða á mál mitt þegar kemur að tveimur litlum spurningum hér á eftir.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra með hvaða hætti hann vill tryggja að kostnaðurinn við losunina verði ekki úr hófi þannig að mengunarbótareglan snúist upp í andhverfu sína og feli þá í reynd í sér hvata til þess að t.d. þau skip sem hann nefndi sérstaklega að þetta frumvarp ætti að ná til, ekki síst olíuskip, grípi til þess að losa úrgang sinn í hafið. Það höfum við margsinnis séð gerast hér á fyrri áratugum og alveg undir þennan tíma þegar þau koma að eða nálægt efnahagslögsögunni.

Mig langar sömuleiðis, herra forseti, að vekja máls á því að stundum sprettur fortíðin aftan að manni og gerir manni svolítið bylt við og kemur jafnvel af og til eins og bjúgverpill í höfuð manna. Nú leyfi ég mér að rifja tvennt upp frá síðasta kjörtímabili; í fyrst lagi að hæstv. núverandi ráðherra stóð hér oft blóðugur undan sínum eigin skömmum með félögum sínum úr Framsóknarflokknum og átaldi m.a. mig og ríkisstjórnina fyrir að vera of ötul í því að afsala okkur valdi til útlanda með því að innleiða hér í óðaönn tilskipanir frá Evrópu. Nú er það svo að þegar maður skoðar þetta frumvarp og telur saman þá felur það í sér 20 breytingar á lögum sem beinlínis er skipað að komi að utan. Hæstv. ráðherra hefur a.m.k. gefið það sterklega í skyn að þetta séu ekki mjög þörf lög eða hafi ekki mikið erindi. Mætti velta því fyrir sér ef hann er einhvers staðar staddur hér hvort honum líði ekki illa andspænis þessu. Hæstv. ráðherra er nú kominn í það hlutverk að keyra hér í gegn fjölda aðlagana að Evrópusambandinu og má vekja eftirtekt hæstv. forseta á því að næsta mál á dagskrá felur í sér til viðbótar 17 aðlaganir að Evrópusambandinu. Mér sýnist því að Framsóknarflokkurinn sé að setja Íslandsmet í því að koma hér með miklum hraði í gegn mjög athyglisverðum breytingum á löggjöf Íslands til þess eins að aðlaga Ísland að Evrópusambandinu. Ég finn til með hæstv. ráðherra. Honum sýnist sannarlega þetta vera óljúft en hitt er alveg rétt sem hæstv. ráðherra hreytti hér út úr sér í einu andsvaranna, að það væri ekki hægt að gera annað því að undir þetta jarðarmen hefðum við selt okkur með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég ætla ekki að snúa þessu upp í Evrópuumræðu, herra forseti, en hitt er það að þetta er óvart ein af þeim röksemdum sem beitt er fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Menn eins og ég vilja að Ísland bindist þar sterkari böndum vegna þess að við teljum að með því endurheimtum við hluta af fullveldi okkar, þar getum við haft áhrif á það hvers konar tilskipanir og gerðir við þurfum að taka upp. Komið hefur fram nokkuð vel í þessari umræðu að það er vafamál í besta falli hvaða erindi þetta frumvarp á inn í íslenska lagabálka annað en það að við þurfum að uppfylla skuldbindingar okkar gagnvart samningnum. Við þurfum að innleiða þetta vegna þess að við erum aðilar að þessum samningi jafnvel þó að við getum ekkert sagt um innihaldið.

Komið hefur fram í umræðunum fyrr í dag að heita má að það séu afar fáar tegundir skipa sem ekki njóta undanþágna og þurfa ekkert að fara eftir þessum lögum. Ég spurði hæstv. ráðherra hér fyrr í dag: Hvaða skip eru það sem ekki þurfa beinlínis að sæta ákvæðum þessara laga, verði þau samþykkt? Ekki stóð á svari hjá hæstv. ráðherra: Það eru tankskip og skemmtiferðaskip. En allur þorri annarra skipa er undanþeginn.

Þá kem ég að síðari spurningunni, herra forseti, sem mig langar að hæstv. ráðherra svari hér á eftir. Nú þegar hefur verið talað utan í það að óljóst sé hver beri í reynd gjöldin og þar af leiðandi hvort þau dreifist með eðlilegum jöfnuði á útgerðir. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir spurði t.d. um hvaða útgerðir það væru sem þyrftu að greiða þetta og þá hugsanlega hversu mikið. Það komu engin svör við því. Hugsanlega er það vegna þess að það eru engar eða mjög fáar íslenskar útgerðir sem eru líklegar til þess að þurfa að sæta því. Það eru fyrst og fremst skip sem mér sýnist í fljótu bragði að séu í eigu erlendra útgerða sem sigla hingað til lands sem munu þurfa að greiða þetta gjald.

Þegar sá rauði þráður er skoðaður sem dreginn er undir þá þrenns konar gjaldtöku sem frumvarpið gerir ráð fyrir kemur í ljós, eins og fram hefur komið í þessari umræðu, að langflest skipanna eru undanþegin gjaldtöku þar sem heimild er til þess annaðhvort samkvæmt lögum, ef samþykkt verða, eða með heimildum sem ráðherra fær til þess að undanþiggja þau. Eigi að síður, þó að hæstv. ráðherra hafi réttilega sagt að allt yrði gert til þess að reyna að koma upp búnaði vegna framkvæmdar á þessum lögum með sem minnstum kostnaði, hann nefndi það sérstaklega að reynt yrði að hafa lausan búnað og sem ódýrastan, þá breytir það ekki hinu að þegar svona fá skip munu standa undir gjaldtökunni þá hljóta þau að fá á sig hærri kostnað en ella. Af þeim sökum tel ég að mjög mikilvægt hefði verið að fram kæmu einhvers konar hugmyndir í frumvarpinu og í umsögnum fjárlagaskrifstofu ráðuneytisins um það hversu há þessi upphæð kynni að verða samtals og á einstök skip. En það sætir furðu að ekki er einu sinni gerð tilraun til þess í umsögninni að nálgast það. Það er hins vegar sagt algjörlega skýrt að líklegt sé að kostnaðurinn gagnvart sveitarfélögum og ríkinu verði mjög lítill. Eftir stendur að það vantar mat á það hver kostnaðurinn verður gagnvart útgerðum og einstökum skipum.

Ég vísaði hér til ferðalags til fortíðarinnar og rifjaði upp málflutning hæstv. ráðherra varðandi ofkeyrslu fyrri ríkisstjórnar í aðlögun Íslands að Evrópusambandinu. Kem ég þá að efninu sem ég ætlaði að ljúka ræðu minni á. Flestir núverandi hæstv. ráðherrar sem sátu á þingi á síðasta kjörtímabili ásökuðu ríkisstjórnina aftur og aftur og sérstaklega undir lok kjörtímabilsins um að vera að lauma inn skattahækkunum. Þeir ásökuðu fyrri ríkisstjórn um að taka gjöld hér og hvar án þess að gera það uppskátt, með öðrum orðum að þetta væri leynileg, hljóðvær skattheimta. Það nákvæmlega sama er að gerast í þessu frumvarpi, frú forseti. Hér er lögð til ekki ein, ekki tvær, heldur þrjár tegundir af nýrri gjaldtöku. Engin tilraun er gerð til þess að meta hvaða byrðar það kann að leggja á þau fyrirtæki sem þeim sæta. Ég held að það hafi mjög sjaldan gerst, ég held að bæði stjórn og stjórnarandstaða hafi verið samstiga í því að sjá til þess að þegar frumvörp eru á annað borð lögð fram sem hafa í för með sér kostnað fyrir atvinnulífið þá liggi hann fyrir. Það er ekkert slíkt gagnsæi í þessu frumvarpi. Það finnst mér miður og ég held að hæstv. ráðherra ætti að láta sér það að kenningu verða og leggja ekki fram slík frumvörp aftur í framtíðinni.

Síðan er algjörlega nauðsynlegt að ég og hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir fáum svör við þeim spurningum sem við höfum hér togast á með okkar í millum um hvort tryggt sé að sú gjaldtaka sem áformuð er löglega með samþykkt þessa frumvarps sé í reynd skattur. Ég var þeirrar skoðunar í ræðum fyrr í dag að þar sem gjaldið eigi að miðast við tegund og magn úrgangs væri ekki hægt að kalla þetta skatt, en mér sýnist að hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir hafi með glöggum vísunum í útskýringar annars staðar í frumvarpinu fært nokkuð sterk rök fyrir því að svo sé. Og þá held ég að það sé (Forseti hringir.) nauðsynlegt að það liggi fyrir áður en við ljúkum þessari umræðu.