143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

(Umhvrh.: … sinni enn. Það er ég sem á að svara.)

Frú forseti. Stjórnsemi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra er farin að ná út yfir það sem við getum kallað skynsemismörk. Fyrir utan að stjórna umræðunni í þessum sal vill hann líka stjórna því hverjir fái að tala hér. (Gripið fram í.)

Löng reynsla sýnir það, frú forseti, að enginn í þessum sal gjörþekkir jafn vel sálarkima Framsóknarflokksins og ég. Ég misskil aldrei Framsóknarflokkinn. Ég misskildi hann heldur ekki áðan. Ef hæstv. ráðherra hefði látið svo lítið að hlýða á alla ræðu mína hefði hann komist að því að hugsanlega var það fjarvera hans um stundarsakir úr þingsalnum sem gerði það að verkum að hann náði ekki réttu samhengi í ræðunni. Ég er algjörlega, svo að ég taki það skýrt fram eins og ég hef gert í einum þremur eða fjórum ræðum, sammála mengunarbótareglunni, en það er oft erfitt að framkvæma hana og menn þurfa að vita hvernig það er gert til að vera brandsjúrir á því.

Hæstv. ráðherra hefur sagt tvennt hér. Í fyrsta lagi að þetta verði lítið gjald og hóflegt og í öðru lagi að þær reglur sem á eftir að útfæra, að þessu frumvarpi samþykktu, muni sömuleiðis ganga þannig fram að þær eigi að tryggja það markmið. Þá erum við sammála um það. Að öðru leyti, af því að hv. þingmaður sagði að þegar skrælt væri utan af þessari umræðu, það sem hann kallaði pólitík dagsins, þá væru menn sennilega giska sammála um allt í þessum sölum ef ekki væri pólitíkin. En þá ætti hæstv. ráðherra að velta fyrir sér: Hvers vegna erum við hér? Það er til að viðra skoðanir okkar, láta rök okkar mætast og út úr því að bræða saman stefnur sem mest sátt er um.

Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra skilur þetta, en mér er til efs að aðrir hæstv. ráðherrar (Forseti hringir.) hafi jafn djúpan skilning og ég og hún.