143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. David Cameron, forsætisráðherra Breta, svaraði því aðspurður hvort til greina kæmi að Bretland yrði hluti af Evrópska efnahagssvæðinu að það kæmi ekki til greina að stjórna Bretlandi með faxtæki frá Brussel. Því rifja ég þetta upp að lýsing hæstv. ráðherra á þessu ferli virðist vera nokkuð á þá lund að menn ráði býsna litlu á Alþingi Íslendinga því að þessar tilskipanir hafi verið innleiddar hér áður og fyrr með tilliti til aðstæðna hér þar sem hlutirnir væru almennt í góðu lagi hvað þetta varðaði og hefðu talið það nægilegt, þetta er á þeim árum þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson sat á þingi líka og þekkir kannski til þeirra innleiðinga sem þá fóru fram, en að síðan komi Eftirlitsstofnun EFTA og segi Íslendingum að þó að við höfum talið þetta í góðu lagi hjá okkur skikki hún okkur samt til að innleiða lögin nákvæmlega eins og Brussel vill.

Þá spyr maður: Er sá veruleiki sem við erum stödd í þannig orðinn að það sé bara ákveðið í öðrum löndum nákvæmlega hvaða lög eigi að gilda hér og við höfum litlar heimildir til að aðlaga það því sem við teljum okkar mat á íslenskum aðstæðum? Höfum við engin áhrif á þetta ferli eða telur hv. þingmaður að nýlegar hugmyndir í Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar um að koma fyrir tveimur eða þremur mönnum á göngunum í Brussel muni hjálpa til við að hafa einhver áhrif í þessu efni?

Eins spyr ég hvort það sé reynsla hans að ESA taki upp mál af þessu tagi ef allt er í góðu lagi, ef engin sérstök tilefni eru til og engir hagsmunir kalla á að það þurfi að fara í breytingar eins og hér eru lagðar til.